Leituðu að Thor um allan heim

Kevin Feige framleiðandi Thor: Love and Thunder sem frumsýnd verður í íslenskum bíóum á morgun miðvikudag, segir í myndbandi sem birt er neðst í fréttinni að leitað hafi verið um allan heim að rétta leikaranum í hlutverk ofurhetjunnar. Eftir þrotlausa leit bar hún loks árangur þegar Ástralinn Chris Hemsworth fannst. Hann var með rétta viðmótið og holninguna.

Í myndbandinu er upptaka af því þegar Hemsworth er í áheyrnarprufu vegna fyrstu Thor myndarinnar fyrir meira en tíu árum síðan.

Opinber söguþráður Thor: Love and Thunder er þessi: Thor, Valkyrie, Korg og fyrrum kærasta Thors, Jane Foster, reyna að stöðva Gorr, Guðabanann, sem vill útrýma goðunum úr alheiminum.

Unun að fylgjast með honum

Natalie Portman, sem leikur Jane Foster í myndinni, segir í myndbandinu að það sé hrein unun að fylgjast með Hemsworth í hlutverki Thors. Hann sé svo einbeittur og taki hlutverkið svo alvarlega. Auk þess hafi hann mjög góða tilfinningu og tímasetningu fyrir gríni og á gott með að segja hlutina á rétta andartakinu.

Prófar þar til eitthvað virkar

Tessa Thompson, sem leikur King Valkyrie, hrósar Hemsworth einnig. Hún segir að hann sé hugrakkur sem sýni sig í því að hann sé til í að prófa hluti þar til hann finnur eitthvað sem virkar.

Vera hann sjálfur

Taika Waititi leikstjóri myndarinnar og einn aðalleikara, segir að þegar hann er að leiðbeina Hemsworth segi hann honum stundum að vera bara meira hann sjálfur. Það geri persónuna enn meira aðlaðandi í huga bíógesta.

Ragnarok var nauðsynleg

Eins og sagt er frá í vefútgáfu Men´s Health þá er stærsta ástæðan fyrir velgengni síðustu Thor myndar, Thor: Ragnarok, líklega sú að myndin var nauðsynleg fyrir seríuna. Fyrsta myndin Thor frá árinu 2011 hafi verið fín en sú önnur í röðinni, Thor: The Dark World, hafi skilið áhorfendur eftir úti á köldum klaka, eins og það er orðað í miðlinum.

Því hafi verið bráðnauðsynlegt að gera breytingar og þegar Taika Waititi kom til sögunnar umbreytti hann seríunni og gerði hana að meira gamanefni og leyfði Hemsworth að vera fyndinn. Það virkaði!

Í Thor: Love and Thunder fylgjumst við með hetjunni í fyrsta ævintýrinu síðan í Avengers: Endgame. Allt Ragnarok gengið er mætt aftur svo að segja, en við hefur bæst Christian Bale í hlutverki Guðabanans Gorr, sem Men´s Health segir að standi sig mjög vel. Það kemur varla nokkrum manni á óvart enda Bale margverðlaunaður gæðaleikari.

Men´s Health segir myndina ánægjulega. Hemsworth hafi sem fyrr góð tök á persónunni og fáir komist með tærnar þar sem Thor serían hefur hælana þegar komi að skemmtigildi. Það sé hér í algjöru hámarki.

Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan með samtölum við leikara, framleiðanda og leikstjóra: