Lengri útgáfa af The Rise of Skywalker ekki í spilunum: „Ég get ekki ímyndað mér myndina betri“

Eins og eflaust mörgum Star Wars-aðdáendum er kunnugt um voru viðtökurnar við níundu og nýjustu mynd svonefndu Skywalker-sögu, The Rise of Skywalker, vægast sagt blendnar. Ef marka má gagnrýnendavefinn Rotten Tomatoes hefur engin leikin Star Wars kvikmynd hlotið slakari dóma og hafa margir hverjir verið duglegir að deila um gæði myndarinnar.

Flestir áhorfendur hafa þó náð að vera sammála um að myndin hafi verið fullhröð, pökkuð og hafi ekki verið nægur tími gefinn í vissar útskýringar eða persónur.

Sjá: Aðdáendur æfir yfir nýjum upplýsingum um Palpatine

Aðdáendur hafa verið duglegir að skiptast á sögum um það myndefni sem endaði á klippigólfinu, sem margar hafa verið staðfestar af sumum aðstandendum myndarinnar. Eins og oft fylgir hefur verið kallað eftir því að lengri [„leikstjóra-“]útgáfu af The Rise of Skywalker verði gefin út af Disney.

Bandaríski leikarinn Greg Grunberg, sem fer með lítið hlutverk í The Force Awakens og The Rise of Skywalker (enda góðvinur leikstjóra beggja, J.J. Abrams) segir að meint leikstjóraútgáfa af myndinni sé hreinn orðrómur og verði slík aldrei gefin út.

„Ég kaupi það ekki og hef aldrei skilið af hverju fólk haldi að slík útgáfa sé til,“ segir Grunberg í samtali við The Hollywood Reporter. „Hann [J.J.] var svo jákvæður á meðan öllu ferlinu stóð. Hann minntist aldrei á slíkt að framleiðendur væru að þrýsta á hann til að klippa út senur. Þetta fylgir sjálfsagt allt sköpunarferlinu, en allir þarna hjá Disney eru snillingar. Framleiðendur komu vissulega með athugasemdir, en J.J. átti alltaf lokaákvörðunina og hann naut mikils trausts hjá þeim.“

Sjáðu fyrstu 10 mínúturnar úr The Skywalker Legacy

Þá segir Grunberg að viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda við lokakaflanum hafi verið fullhvöss og óréttlætanleg, að The Rise of Skywalker sé – að hans mati – fullkominn endir á sögunni.

Leikarinn segir:
„Það hafa allir rétt á sínum skoðunum og hver hefur sína hugmynd um hvernig best væri hægt að ljúka sögunni. Ég get ekki ímyndað mér myndina betri heldur en þessa sem J.J. gerði. Ég segi þetta ekki sem vinur hans, heldur sannur aðdáandi. Það eru atriði í henni sem ég hafði aldrei áður séð [í Star Wars mynd], eins og lokabardaginn. Ég hef aldrei séð þetta svona stórt áður. Myndin var svo ótrúlega fullnægjandi og falleg… Ég elska hana svo mikið.“