Leðurfés forsaga kemur í haust

Hvernig ætli keðjusagarmorðinginn Leatherface, eða Leðurfés í lauslegri íslenskri þýðingu, hafa verið sem barn? Það er erfitt að ímynda sér það, en það er þó meðal þess sem fjallað verður um í nýrri kvikmynd, Leatherface, sem er forsaga hinnar goðsagnakenndu hrollvekju The Texas Chain Saw Massacre.  Eins og flestum ætti að vera kunnugt um þá lék hinn íslensk-ættaði Gunnar Hanson hlutverk Leatherface í upprunalegu myndinni.

Framleiðandi nýju myndarinnar, Christa Campbell, setti tilkynningu um málið í gær á Twitter: „Til allra aðdáenda Léðurféss þarna úti,“ skrifaði Campbell. „Myndin verður frumsýnd í október.“

Myndinni er lýst sem upprunasögu fyrir Texas Chain Saw Massacre, og segir frá því þegar ungri hjúkrunarkonu er rænt af fjórum tánings-ofbeldishrottum sem sleppa út af geðspítala og fara með hana í hryllilegt ferðalag.  Á hælum hópsins er léttruglaður lögreglumaður í hefndarhug, og einn unglingurinn í hópnum mun í kjölfarið lenda í hræðilegu atviki sem mun skemma hann andlega til frambúðar, og gera úr honum skrímslið Léðurfés.

Leikstjóri er Alexandre Bustillo og Julien Maury, en þau eru einnig ábyrg fyrir hrollvekjunni Inside frá árinu 2007.

Með helstu hlutverk fara Stephen Dorff og Lili Taylor, sem meðal annars hefur leikið í The Conjuring og í mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Cold Fever.

Kíktu á Twitter færsluna hér fyrir neðan og plakat myndarinnar þar fyrir neðan:

Leatherface Movie Poster CR: Millennium Films.