Leynilögga keppir um Evrópsku kvikmyndaverðlaunin

Leynilögga, kvikmynd í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, hefur verið tilnefnd sem besta gamanmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum (European Film Awards) í ár.

Verðlaunahátíðin fer fram í Reykjavík 10. desember. Hún er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Bússi er harður í horn að taka.

Myndin fjallar um leynilögguna Bússa sem leikinn er af Auðunni Blöndal. Bússi er einn besti lögreglumaður Reykjavíkur sem er í mikilli baráttu við sjálfan sig á sama tíma og hann berst við hættulegustu glæpamenn landsins.

Standandi lófaklapp

Í tilkynningunni segir að Leynilögga hafi verið heimsfrumsýnd við standandi lófaklapp á kvikmyndahátíðinni í Locarno á Ítalíu 2021. Myndin hefur síðan ferðast heimshorna á milli og verið sýnd á eftirsóttum kvikmyndahátíðum.

Með aðalhlutverk fara Auðunn Blöndal, Egill Einarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Vivian D. Ólafsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Björn Hlynur Haraldsson. Handrit skrifuðu Nína Petersen, Sverrir Þór Sverrisson, Hannes Þór Halldórsson. Framleiðandi er Lilja Ósk Snorradóttir.

Leynilögga er á meðal þriggja kvikmynda sem tilnefndar eru í flokki gamanmynda. Hinar myndirnar eru La Fracture frá Frakklandi og El Buen Patrón frá Spáni.

Fleiri eiga möguleika

Fleiri íslenskar kvikmyndir eiga möguleika á að verða tilnefndar til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í ár. Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, og Volaða land, eftir Hlyn Pálmason, eru á meðal 30 kvikmynda sem eru í forvali til verðlauna. Tilkynnt verður um tilnefningar 8. nóvember, að lokinni atkvæðagreiðslu meðlima Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.

Frekari upplýsingar má finna á vef EFA.

Stikk: