Lífsleikni Gillz fær plakat

gillzEgill „Gillz“ Einarsson setti rétt í þessu nýtt plakat á Twitter-síðu sína fyrir þættina Lífsleikni Gillz. Þáttunum hefur reyndar verið skeytt saman í eina kvikmyndaveislu sem verður frumsýnd þann 7. febrúar næstkomandi.

Plakatið minnir óneitanlega á plakatið fyrir kvikmyndina The Expendables með Sylvester Stallone í aðalhlutverki. Gillz er einmitt fremstur í flokki á plakatinu og með húfuna góðu.

Í Lífsleikni Gillz heldur Egill Einarsson áfram að fræða og upplýsa Íslendinga um hvað má og hvað ekki í öllu milli himins og jarðar. Við fylgjumst með hinum ýmsu rasshausum reyna að tækla lífið og klúðra öllu í kringum sig í sprenghlægilegum dæmisögum þar sem Gillz bjargar málunum iðulega fyrir rest.

Engum sögum fylgir hvort skrokkur Gillz sé unninn í myndvinnsluforriti, líkt og frægt var með forsíðu símaskrárinnar árið 2011.