Lopez gerir 33 í Síle

Jennifer Lopez er sögð munu leika aðalhlutverk á móti Antonio Banderas í sílesku myndinni 33, sem fjallar um námuslysið í Síle árið 2010.

Það var e-online fréttaveitan sem greindi frá þessu.

statham og lopez

Myndin verður fyrsta kvikmyndaverkefni Lopez síðan hún lék í Parker með Jason Statham, sem nú nýverið kom út á DVD hér á Íslandi.

33 fjallar um hið átakanlega sannsögulega atvik þegar 33 síleskir námuverkamenn lokuðust inni í námu djúpt niðri í jörðinni í Atacama eyðimörkinni í Síle í ágúst 2010.

Mönnunum var öllum bjargað á lífi úr prísundinni 69 dögum síðar.

Hollywood framleiðandinn Mike Medavoy keypti kvikmyndaréttinn að sögu mannanna og fékk Banderas til að leika Mario Sepulveda, sem var einn fyrsti námuverkamaðurinn sem var bjargað. Hann fékk viðurnefnið „Super Mario“, vegna heillandi framkomu. Sepulveda hefur síðan orðið einn aðal talsmaður hópsins.

Ásamt Lopez og Banderas munu þeir Martin Sheen og hinn brasilíski Rodrigo Santoro leika í myndinni m.a.

Ekki er vitað enn hvaða hlutverk Lopez mun leika.

Leikstjóri 33 er Patricia Riggen og tökur á myndinni hefjast í Síle í haust.