Machete Kills heimsfrumsýnd á Fantastic Fest

Bíóáhugamenn á ferð um Bandaríkin í september nk. takið eftir! Nýjasta mynd Robert Rodriguez, Machete Kills, verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Fantastic Fest sem fer fram þar í landi í Austin í Texas fylki, þann 19. september nk.

machete

Myndin verður opnunarmynd hátíðarinnar og viðstaddar verða tvær helstu stjörnur myndarinnar þau Danny Trejo og Alexa Vega ásamt leikstjóranum Robert Rodriguez. 

„Á hverju ári setjum við saman óskalista af myndum til að fá sem opnunarmynd hátíðarinnar, og Machete Kills var efst á þeim lista,“ sagði stofnandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar Tim League í samtali við Latino Review vefsíðuna.

„Fantastic Fest hefur skipað sér í fremstu röð hátíða þar sem aðdáendur geta fyrstir fengið að njóta nýjustu og svölustu stórmynda og mynda í ákveðnum flokkum ( genre movies ),“ sagði leikstjórinn Robert Rodriguez. „Ég er upp með mér og mjög spenntur að fá að heimsfrumsýna Machete Kills hér í Austin og hleypa Fantastic Fest af stokkunum í ár.“

Í Machete Kills þá er þorparinn Machete ráðinn af forseta Bandaríkjanna til að ráðast gegn klikkuðu illmenni sem er bæði byltingarsinnaður og vellauðugur, og ætlar að koma á allsherjar stjórnleysi um öll hin byggðu ból.

Leikarahópurinn er glæsilegur;  Danny Trejo, Michelle Rodriguez, Sofia Vergara, Amber Heard, Carlos Estevez, Lady Gaga, Antonio Banderas, Jessica Alba, Demian Bichir, Alexa Vega, Vanessa Hudgens, Cuba Gooding, Jr., William Sadler, Marko Zaror og Mel Gibson.

Myndin verður frumsýnd í almennum sýningum í Bandaríkjunum 4. október nk.

fantastic