Mannætuhákarl ræðst á þrjá vini – fyrsta stikla úr Open Water 3: Cage Dives

Líkurnar á að deyja í hákarlaárás eru einn á móti níu hundruð milljónum, eins og segir í fyrstu stiklu fyrir hákarlamyndina Open Water 3: Cage Dives.

Stiklan lítur bara ágætlega út, en hrollvekjan virðist vera gerð eins og um fundið myndefni sé að ræða.

Myndin kemur í bíó og á VOD í Bandaríkjunum 11. ágúst nk., en stiklan gefur til kynna að blóði verði úthellt, og fólk muni bíða milli vonar og ótta ( og mögulega án einhverra útlima ) í sjónum eftir björgun.

Myndin segir frá þremur vinum sem eru að taka upp inngöngumyndband fyrir jaðar-raunveruleikaþátt. Þau taka þátt í köfun í hákarlabúri, en eitthvað fer úrskeiðis og mannætuhákarlar gera þeim lífið leitt svo um munar.

Fyrsta Open Waters myndin var frumsýnd árið 2003 og fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, og 72% einkunn á Rotten Tomatoes vefsíðunni. Myndin hefur þó aðeins lægri einkunn meðal áhorfenda á sömu síðu, eða 32%.

Önnur myndin heitir Open Water: Adrift og var frumsýnd 2006, en hún fékk verri viðtökur en fyrsta myndin.

Kíktu á stikluna og plakat myndarinnar hér fyrir neðan: