Robbie Collin kvikmyndagagnrýnandi breska blaðsins The Daily Telegraph gefur nýjustu mynd suður-kóreska Óskarsverðlaunaleikstjórans Bong Joon-ho, Mickey 17, fjórar stjörnur af fimm mögulegum í nýjum dómi.

Með aðalhlutverkið í myndinni fer Robert Pattinson.
Þó að myndin heiti Mickey 17 er hún ekki sautjánda myndin í röðinni um þennan Mickey, eins og einhverjum gæti kannski dottið í hug, heldur fjallar hún um slysaleg ævintýri klónsins Mickey sem er í landnámsferð úti í geimnum, en myndin er endurlit til stórmynda síðari hluta tuttugustu aldarinar, eins og Collin orðar það í dómi sínum.
Ekki hefðbundin stúdíómynd
Hann segir myndina ekki hefðbundna stúdíómynd þrátt fyrir ofangreint.
Myndin er nýjasta mynd hins kóreska Bong Joon-ho sem sló í gegn á Óskarsverðlaununum fyrir fimm árum síðan með Sníkjudýrunum, eða Parasite. Eftir hana fékk hann frjálsar hendur hjá Warner Bros. til að gera eitthvað skemmtilegt.
Myndin er gerð eftir skáldsögunni Mickey7 eftir Edward Ashton. Hún var tekin upp árið 2022 og upphaflega átti að frumsýna hana í mars 2024.
Mickey Barnes, sem er þekktur sem "fórnanlegur" áhafnarmeðlimur í geimferð, er valinn í hættuleg verkefni því hægt er að endurnýja hann í sífellu ef líkaminn deyr, en minnið helst óskaddað. En hlutirnir geta þó farið illilega úrskeiðis....
Collin segir að stjórnendur Warner Bros. hafi haft góða ástæðu fyrir því að vera stressaðir út af því hvað Joon-ho myndi gera, en hann segir að myndin sé martröð markaðsfólks.
Hann segir að Pattinson fái hér m.a. að hnykla gamanleikaravöðvana. Mickey er í hans túlkun fyrsti landnemi á snævi þakinni plánetu sem kallast Niflheim – en hægt er að „prenta“ líkama hans aftur og aftur út í hið óendanlega, sem getur komið sér mjög vel í svona ferð.

Myndin flakkar á milli fáránleika, gríns, og hrolls, og aftur til baka, jafnvel í sama atriðinu.
Aðrir leikarar eiga sterka innkomu að sögn Collin, eins og Mark Ruffalo í hlutverki predikara skástrik óligarka, sem stýrir landnámsferðinni. Toni Collette er eiginkona hans og líkist Lady Macbeth. Og Naomi Ackie er einskonar kærasta Mickey, sem kann að meta erótíska möguleika sem felast í því að hægt sé að margfalda Mickey.