Mary Poppins svífur niður úr skýjunum

Barnapían Mary Poppins bókstaflega svífur niður úr skýjunum, tveimur feðgum á jörðu niðri sem eru að fljúga flugdreka, til mikillar undrunar, í fyrstu kitlu fyrir nýja Disney mynd um Poppins, Mary Poppins Returns.

Í myndinni fer Emily Blunt með titilhlutverkið, en Poppins er nánast hin fullkomna barnfóstra, með töframátt og getur breytt öllum vandamálum og viðfangsefnum í sannkallað ævintýri. Hamilton höfundurinn Lin-Manuel Miranda leikur vin hennar Jack, en hann er bjartsýnn ljósamaður, sem  vinnur við að lýsa upp Lundúnaborg.

Ben Whishaw leikur Michael Banks, Emily Mortimer leikur Jane Banks og Julie Walters er ráðskona Banks hjónanna, Ellen. Þá leikur sjálfur Colin Firth hlutverk William Weatherall Wilkins. Stórleikkonan Meryl Streep er síðan í hlutverki sérviturrar frænku Mary, Topsy.  Í myndinni eru einnig kynnt til sögunnar þrjú ný börn Banks hjónanna.

Angelela Lansbury úr Murder She Wrote sakamálaþáttunum, leikur blöðrukonuna, sem þekkt er úr bókum PL Travers og Dick Van Dyke fer með hlutverk Mr. Dawes Jr., fyrrum forstjóra bankans sem Wilkins stjórnar núna.

Mary Poppins Returns kemur í bíó hér á landi í desember 2018.

Leikstjóri er Rob Marshall og handrit skrifar David Magee.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan og nýtt plakat þar fyrir neðan: