Mátturinn dofnar lítillega

Sjöundi kaflinn í Stjörnustríðs sögunni, „The Force Awakens“ (2015), var að margra mati vísvitandi „nostalgíuflipp“ fyrir aðdáendur og í raun bara dulbúin endurgerð upprunanlegu „Star Wars“ (1977) en hann lagði grunninn að spennandi áframhaldi fyrir nýliða í geimævintýrinu ásamt því að sleppa ekki takinu af gömlu hetjunum. „The Last Jedi“ heldur áfram þar sem frá var horfið en myrka hliðin, Nýja reglan, hefur hreðjatak á Andspyrnunni og herðir það enn frekar í stöðugri ásókn til að þurrka hana út með þungum árásum á dvínandi mannafla hennar.

Á sama tíma hefur Rey (Daisy Ridley) haft upp á Loga Geimgengli (Mark Hamill) á eyðilegri eyju og þar samþykkir gamli Jedi meistarinn að lokum að taka hana í þjálfun.

„The Last Jedi“ fylgir í grunninn sama mynstri og „The Empire Strikes Back“ (1980) þar sem stóra illa Veldið þjarmar að Andspyrnunni og ungur Jedi nemi er undir handleiðslu eldri meistara. Ansi kunnuglegt. En innri barátta Kylo Ren/Ben Solo (Adam Driver) við sálartetrið sitt er enn við lýði og vilji hans til að útrýma allri fortíð, góðri og slæmri, er fantagott innlegg í geimdramað og leggur grunninn að góðum senum og tilfinningaríkum augnablikum.

„The Force Awakens“ skildi eftir nokkrar stórar spurningar og nokkur svör fást hér en ekki öll. Það kemur kannski aðeins á óvart hve fljótlega stórar uppljóstranir eru afgreiddar og með minni háttar tilþrifum en maður hefur á tilfinningunni að níundi kaflinn (væntanlegur eftir tvö ár) lumi á einhverju óvæntu og setji hluti í annað samhengi. Sumt sem leikstjóri „The Force Awakens“, J.J. Abrams, lagði grunninn að og útfærði með ákveðinni dulúð fær lítinn skjátíma hér og nánast rumpað af á skömmum tíma. Rian Johnson, leikstjóri og handritshöfundur hér, var greinilega með aðeins öðruvísi sýn og áherslur.

Rétt eins og með „The Empire Strikes Back“ forðum daga þá er „The Last Jedi“ með nokkra söguþræði í gangi á sama tíma og atburðarrásin er fyrir vikið sæmilega hröð en ákveðinn hægagangur einkennir framvinduna og áhorfandinn er nokkrum skrefum á undan á stundum. Handritið er frekar fyrirsjáanlegt á augnablikum sem eru lengi að byggja sig upp en því er ekki að neita að nokkur lykilatriði eru listilega vel af hendi leyst og búa yfir gríðarlegu skemmtanagildi. Það verður þó að segjast að myndin er helst til of langdregin og mætti sneiða niður um þónokkrar mínútur.

Í raun er erfitt að meta „The Last Jedi“ almennilega þar sem myndin hefur ekkert eiginlegt upphaf né endi. Að vissu leyti líður hún fyrir að vera í skugganum á 37 ára gömlum millikafla sem þykir nær ósnertanlegur í gæðum og uppljóstranirnar sem áttundi kaflinn hefur uppi í erminni eru fljótafgreiddar og helst til snubbóttar. Níundi kaflinn mun leiða í ljós hve sterk heildin er í þessum nýja þríleik.

Leikarar standa sig með prýði og hæst ber að nefna þríeykið Hamill, Ridley og Driver. Rey og Ben Solo eru áhugaverðar persónur og leikararnir gæða þær miklu lífi. Hamill hefur alltaf verið góður leikari en nú munu enn fleiri fá að sjá hvað hann er fær um en alger kúvending á Loga (frá gamla þríleiknum) hlaut alltaf að vera erfitt að koma til skila en kappinn gerir það fantavel. Lúmskur húmor Loga kemst meistaralega til skila sem og nokkrar mjög góðar línur sem eiga án efa eftir að lifa góðu lífi utan myndanna. Og blessuð sé minning Carrie Fisher en Lilja Prinsessa spilar þó nokkra rullu hér og fær margar senur og leikkonan sáluga skilar því vel frá sér. Hjartað í gömlum Stjörnustríðsnörd tekur næstum aukaslag þegar stutt sena með Loga og Lilju dúkkar upp.

Nær allar Stjörnustríðsmyndirnar batna enn frekar með auknum áhorfum (meira að segja þríleiks-forveri George Lucas) og án efa mun það eiga við um „The Last Jedi.“ Fyrstu hughrifin er þó þau að þessi millikafli er helst til of langdreginn, fyrirsjáanlegur og kemur öllum trompunum frá sér með of miklum flýti. Sem er frekar kómískt í ljósi lengdar myndarinnar. En það er mjög mikið af jákvæðum hlutum í gangi og maður bíður spenntur eftir níunda kaflanum.

Oddur Björn Tryggvason