Meinlaus en lúinn elliskellur

Þau Edda Björgvinsdóttir og Laddi eru dýnamískt dúó og hafa alltaf verið. Þau spila yfirleitt áreynslulaust á móti hvort öðru og hafa bæði margsinnis sannað það, á skjá og sviði, að miklu meira býr í þeim en að vera „bara“ gamanleikarar. Eða strumpar.

Aftur á móti eru nákvæmlega þessir kostir helsta ástæðan fyrir vandamálinu við Ömmu Hófí, sem er: hversu takmarkað hægt er að vinna með hæfileikana þegar allt hangir á þvældu handriti eða framleiðslu sem stenst ekki alveg viðráðanlegar gæðakröfur til hljóðs og myndar.

Þrátt fyrir að ýmislegt sé gott í Hófí er afraksturinn plagaður af því að sóa fínum möguleikum efniviðarins og góðri kemistríu aðalleikaranna. Það er mér hulin ráðgáta hvernig ekki tókst að gera eitthvað örlítið svalt úr glæpafarsa þar sem eldri borgari – í túlkun Eddu Björgvins – hefnir sín á kerfinu í kjölfar fjárhagsmissis vegna hrunsins. Og hvernig gerir hún það? Með því að klæðast jólasveinabúningi og ræna banka með afsagaðri haglabyssu og mjúkan Ladda sér við hlið.

Lengi mætti telja feilsporin en fyrirgefanlegri væru þau ef ákveðinn vandi myndi ekki blasa við: meiri fyndni óskast.

Fullir vasar Stellu

Fyrst að ekki er til, því miður, neitt alvald sem getur breytt því hvað húmor er einstaklingsbundinn, er ekki óvitlaust að setja tón Ömmu Hófíar í eftirfarandi samhengi: Hún kemst næst því að líkjast samsuðu gamanmyndanna Stellu í framboði, Fullra vasa og bróðurparts lummulegra lögguþátta í íslenskri sjónvarpssögu. Úr verður þó meira krúttlegur og lúinn elliskellur frekar en stúdentamyndin sem arfaslöku sýnishornin úr kvikmyndinni birta okkur.

Flæði myndarinnar skortir alvarlega skriðþunga, ryþma og á til að fletjast út á þeim stöðum þar sem einmitt ætti að gefa í. Skiptingar milli sena verða á tíðum stífar, lýsingin ofaukin sumstaðar og hefði lengri tími í eftirvinnslu eflaust skipt sköpum. En ef velt er upp úr ímynduðum „hvað ef“ pælingum hefði alveg eins mátt endurskrifa síðasta uppkast handritsins.

Óheppileg heppni

Ekki er í raun verið að ætlast til mikils af flestum leikurum í myndinni, en þeim tekst annað slagið að klóra sig upp úr þunnildunum. Í minni hlutverkunum eru það Þorsteinn Guðmundsson, Gísli Örn Garðarsson, Anna Svava Knútsdóttir og (tvímælalaust) Steindi Jr. sem kreista út sæmilega tímasetningu í kómík og yfirstíga stærri hindranirnar; svo sem klunnalega klippingu, hálftýnda leikstjórn og bragðlausan keim samtala.

Sagt er frá tilfinningum hreint út en erfitt er að finna fyrir þeim. Brandarar koma af færibandi en falla hratt. Söguþráðurinn hefur skýra stefnu, líflega fléttu en klúðrið er hvernig þessu er púslað saman.

Atburðarásin setur mikið púður í langsóttar tilviljanir og brandaralausnir sem koma alveg úr lausu lofti. Edda og Laddi hjóla í sín hlutverk af eldmóði en samband þessara aðalpersóna er hið furðulegasta og er uppfullt af lausum endum í handritinu. Af þeim tveimur er töluvert meira spunnið í Eddu í titilrullunni en hún er teiknuð upp sem harðnagli og einstaklingur á krossgötum í lífinu, sem finnur fyrir þrengslum, tómarúmi, íþyngjandi peningaáhyggjum og tragískri eftirsjá.

Að vísu er hér kannski of mikið og of djúpt verið að lesa í hlutina vegna þess að ekkert af þessu skilar sér á skjáinn. Leikstjórinn kallar hvorki fram samúð né stuðning áhorfandans til að halda með tvíeykinu og ráni þeirra – og enn síður þegar skýrist hvað áætlun þeirra er fíflaleg og algjörlega byggð á heppni. Réttara sagt þeirri heppni sem handritshöfundur kokkar upp og notar til að grafa sig upp úr holum.

Illa farið með Grímu

Hvað almenna úrvinnslu varðar er það stórslysi líkast hvernig unnið er úr persónunni Rakel, ömmubarni Hófíar sem leikin er af Grímu Kristjánsdóttur. Rakel þessi spilar stóran þátt í framvindu og prófíl sjálfrar Hófíar en handritið dregur hana inn í söguna eftir þörfum án svigrúms til að þróa karakter með púls og persónuleika. Eftir stendur Gríma þá svipbrigðalaus í uppsprengdu gestahlutverki. Það kemur sömuleiðis á óvart hversu stefnulaus þróunin verður hjá persónu Sveppa miðað við umfang hlutverksins og tengslum hans við karakter Steinda. Endar þá persónan í raun á því að éta upp tíma, sem betur hefði verið nýttur í Grímu, eða til að herða á sambandi Eddu og Ladda.

Sennilega er gagnslaust að sigta út gloppur í persónusköpun þegar ákvarðanir flestra eru margar bjánalegar, ósannfærandi og styrkja sjaldan grínið í kringum farsann. Á blaði er uppbygging söguþráðarins í húrrandi óreiðu og tekst Gunnari B. Guðmundssyni leikstjóra ekki alveg að finna jafnvægi á milli brandaradælu farsagangsins og alvarleikans þegar meira er í húfi.

Hvort sem hentar betur að kalla Ömmu Hófí grínfarsa, gamanmynd um mannfólk eða létta glæpamynd, breytir það lítið niðurstöðunni. Grínið er máttlaust og gamanið nær aldrei flugi. Aðgangseyririnn verður þó aldrei að hatursglæpi fyrir veskið en ískyggilega nálægt því.

Myndin er nógu létt, sakleysisleg og ærslafull til að geta skemmt eldri borgurum, krökkum og fáeinum þar á milli, auk þeirra sem finnst einfaldlega bara gaman að sjá jólaskraut sem hreyfimynd. Í stuttu máli virkar Amma Hófí best á hópa sem eru í þeirri lúxusstöðu að eiga eftir að uppgötva alvöru gamanmyndir, eða þá sem hafa einfaldlega gleymt þeim.

Verra gæti það verið.