Myndir mánaðarins, febrúar 2019 - Bíó

10 Myndir mánaðarins Bíófréttir – Væntanlegt Ekkert gefið upp Eins og lesendur Mynda mánaðarins hafa eflaust tekið eftir hvetjum við þá oft til að kynna sér stiklur myndanna sem við erum að fjalla um hér í blaðinu til að glöggva sig nánar á hvers konar myndir er um að ræða og út á hvað þær ganga. Við vitum hins vegar að margir hafa varann á þegar stiklur úr myndum eru annars vegar því það kemur auðvitað fyrir að þær segja of mikið um söguna og geta því skemmt fyrir upplifuninni þegar að því kemur að horfa á myndina í heild. Fyrir þetta hafa aðstandendur Avenger: Endgame ákveðið að taka og hafa gefið það út að allt kynningarefni um myndina muni einungis innihalda upplýsingar um efni og atriði sem gerast á fyrstu tuttugu mínútunum. Þannig á að vera tryggt að enginn geti séð fyrir hvað gerist í sögunni eftir það þannig að restin af myndinni, allar 129 mínúturnar (ef hún verður jafn löng og Infinity War sem var 149 mínútur), muni koma öllum í opna skjöldu. Endgame verður frumsýnd í lok apríl. Villeneuve gerir Dune Fransk-kanadíski leikstjórinn Denis Villeneuve sem á m.a. að baki myndirnar Prisoners , Sicario , Arrival og Blade Runner 2049 , er nú kominn á fullt við gerð sinnar næstu myndar en hún er byggð á einhverri þekktustu og söluhæstu vísindaskáldsögu allra tíma, Dune , eftir bandaríska rithöfundinn Frank Herbert. Þar fylgir Denis í spor Davids Lynch sem gerði sögufræga mynd eftir þessari bók árið 1984 en hún hefur einnig verið notuð sem efniviður í tölvuleiki og sjónvarpsþætti. Ekki er alveg búið að ráða allan leikhópinn en þeir leikarar sem þegar eru komnir um borð og munu fara með stærstu hlutverkin eru Timothée Chalamet sem leika mun Paul Atreides, Rebecca Ferguson sem leikur Lady Jessicu, Dave Bautista sem leikur Glossu „Beast“ Rabban, Charlotte Rampling sem leikur Mother Mohiam og Stellan Skarsgård sem leika mun Baron Harkonnen. Frumsýningardagur er óákveðinn en sennilega er stefnt að frumsýningu seint á næsta ári. Og talandi umTom Holland ... ... þá verðum við auðvitað að minnast á að fyrsta langa stiklan úr næstu Spider-Man -mynd var frumsýnd fyrir skömmu og er að sjálfsögðu stórskemmtileg eins og búast mátti við. Í myndinni, sem ber undirtitilinn Far From Home og verður frumsýnd í júlí, förum við með Peter Parker og nokkrum skólafélögum hans í ferðalag til Evrópu þar sem ætlunin er að heimsækja sögufræga staði. Að sjálfsögðu leysist allt upp í hasar og læti þegar Nick Fury birtist á svæðinu og vill að Peter hjálpi til við að ráða niðurlögum hins öfluga Quentins Beck, öðru nafni Mysterios, sem Jake Gyllenhaal leikur. Nick er eins og áður leikinn af Samuel L. Jackson en með önnur stór hlutverk fara m.a. þau Zendaya, Cobie Smulders, Marisa Tomei, Jon Favreau, Michael Keaton, Angourie Rice og Jacob Batalon sem leikur besta vin Peters, Ned. Leikstjóri er sá sami og í myndinni Homecoming , Jon Watts, og handritshöfundarnir eru einnig þeir sömu, Erik Sommers og ChrisMcKenna. Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjar fleiri gestapersónur úr Marvel-heiminum komi við sögu en við þorum ekki að giska á hverjar þær verða. Tom Holland leikur Nathan Drake Nafn Nathans Drake hringir áreiðanlega engum bjöllum í huga annarra en þeirra sem spila tölvuleiki og þá sérstaklega þeirra sem spila PlayStation-leiki. Nathan þessi er nefnilega aðalpersónan í leikjaseríu sem ber samheitið Uncharted og hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að fyrsti leikurinn, Uncharted: Drake’s Fortune , kom út á PlayStation 3 árið 2007. Segja má að allar götur síðan hafi hugmyndin að gerð myndar um Nathan verið uppi á borðum en það var þó ekki fyrr en núna nýlega sem staðfest var að hún væri komin í gang undir stjórn leikstjórans Dans Trachtenberg sem gerði myndina 10 Cloverfield Lane . Einnig hefur verið tilkynnt að köngulóarmaðurinn Tom Holland hafi verið ráðinn í hlutverk Nathans, en sá er mikill ævintýramaður sem ferðast um allan heim í leit að fjársjóðum og fornum munum sem seljast fyrir góðan pening. Ekkert liggur fyrir um aðra leikara eða frumsýningardag.

RkJQdWJsaXNoZXIy NTY0MTE=