Myndir mánaðarins, apríl 2019 - Bíó
6 Myndir mánaðarins Bíófréttir – Væntanlegt Ramy leikur vonda kallinn Við sögðum frá því í síðasta blaði að 25. James Bond-myndin sem nú er í vinnslu og til stendur að frumsýna í apríl 2020, hefði hlotið heitið Shatterhand . Nýjustu fréttir af henni herma nú að ákveðið hafi verið að bjóða Bohemian Rhapsody -stjörnunni Ramy Malek að taka að sér hlutverk aðalandstæðings Bonds í myndinni. Þegar þetta er skrifað hefur ráðningin ekki verið 100% staðfest en þegar Ramy sjálfur var spurður út í málið á dögunum sagðist hann því miður ekki geta látið hafa neitt eftir sér um gang samningaviðræðna annað en það að það stæði ekki á honum að þiggja hlutverkið. „Já, auðvitað segði ég já við slíku boði enda um draumahlutverk að ræða fyrir mig. Mér finnst gaman að leika vonda kalla.“ Við sjáum hvað setur en búast má við tíðum fréttum af leikaravali í myndina á næstu vikum í viðbót við fastaleikarana Daniel Craig, Ralph Fiennes, Naomie Harris og BenWhishaw enda eiga tökur myndarinnar að hefjast í apríl. Tryllarnir gerir það gott Önnur mynd Jordans Peele á eftir hinni rómuðu Get Out , Us , sló heldur betur í gegn í kvikmyndahúsumþegar hún var frumsýnd 22. mars og fór um leið á spjöld kvikmyndasögunnar þegar hún halaði í kassann meira en 70 milljónir dollara á sinni fyrstu sýningarhelgi í Bandaríkjunum – og varð um leið önnur hrollvekja sögunnar til að gera það á eftir Halloween sem sló í gegn síðastliðið haust. Myndin hefur einnig hlotið mjög góða dóma flestra gagnrýnenda, er með 8,0 í meðaleinkunn frá 53 gagnrýnendum á Metacritic þegar þetta er skrifað, og þykir nú mjög líkleg til afreka á verðlaunahátíðum þegar árið verður gert upp, rétt eins og raunin varð með Get Out sem var einmitt einnig frumsýnd í marsmánuði fyrir tveimur árum og skilaði að lokum hátt í 260 milljónum dollara í tekjur í kvikmyndahúsum. Eins og staðan er þegar þetta er skrifað lítur allt út fyrir að Us eigi eftir að gera enn betur og því er ekki að undra að fréttamenn séu þegar farnir að spyrja Jordan Peele hvað hann ætli að bjóða upp á næst. Engin svör liggja fyrir af hans hálfu en hann hefur samt gefið í skyn að hann langi til að halda áfram á sömu braut og vonar að þriðja mynd hans komi í bíó eftir tvö ár. Næsta hrollvekja sem frumsýnd verður er svo Pet Sematary sem gerð er eftir einni af bókum Stephens King og er kynnt hér aftar í blaðinu. Þær ánægjulegu fregnir bárust af henni rétt áður en þetta blað fór í prentun að fyrstu viðbrögð gagnrýnenda sem sáu hana á South by Southwest-hátíðinni 20. mars séu afar góð. Þannig sagði t.d. gagnrýnandi IGN, Jim Vejvoda, að þessi kvikmyndaútfærsla blési nýju lífi í söguna og væri ein besta mynd semgerð hefur verið eftir bókum Stephens á meðan James Mottram hjá Total Film lofar því að aðdáendur Stephens og hrollvekja yfirleitt verði ekki fyrir neinum vonbrigðum. Þess má geta fyrir þá sem þekkja söguna að ákveðið var í samráði við Stephen að breyta endi hennar frá því sem var í bókinni og samnefndri kvikmynd semgerð var eftir henni árið 1989 þannig að jafnvel gamlir aðdáendur hennar eiga í vændum alveg nýja fléttu sem ekki hefur sést áður. Ámyndinni hér fyrir ofan eru leikstjórarnir tveir, Kevin Kölsch og DennisWidmyer, sem hljóta nú að bíða spenntir eftir að sjá hvort viðtökur almennings verði jafn góðar og viðtökur gagnrýnendanna sem séð hafa myndina. Ryan Reynolds er Pikachu Fyrsta leikna (eða hálfleikna) Pokémon -myndin er væntanleg í kvikmyndahúsin 10. maí og hafa stiklurnar úr henni notið mikilla vinsælda enda bráðskemmtilegar og bera með sér að von sé á góðri skemmtun. Myndin byggir að stórum hluta til á hinum gríðarvinsæla tölvuleik Detective Pikachu sem kom út 2016 og í aðalhlutverkum mennsku persónanna eru þau Justice Smith, Kathryn Newton og Ken Watanabe. Pikachu sjálfur fær hins vegar rödd og leikgleði Ryans Reynold lánaða og er óhætt að fullyrða eftir að hafa séð stiklurnar (þær eru þrjár, ein löng og tvær stuttar) að Ryan fari á kostum í talsetningunni. Myndin gerist í veröld þar sem fólk og Pokémonar búa saman og fjallar um það þegar þeir Pikachu spæjari og Tim Goodman taka höndum saman í leit að föður þess síðarnefnda sem hvarf sporlaust. Við segjum betur frá myndinni í næsta blaði en skorum auðvitað á alla Pokémon- og Ryan Reynolds-aðdáendur að kíkja á bráðskemmtilegar stiklurnar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy NTY0MTE=