Timberlake dansari í spor Bacons

Jæja, þá er loksins farið að glitta í endurgerð dansmyndarinnar Footloose frá árinu 1984 sem skaut Kevin Bacon kyrfilega upp á stjörnuhimininn. Búið er að ráða mann í aðalhlutverkið, Ren, og er það enginn annar en Kenny Wormald, en hann hefur aldrei leikið í kvikmynd áður. Wormald hefur þó unnið það sér til frægðar að hafa dansað með söngvaranum og poppstjörnunni Justin Timberlake á hljómleikaferð hans um heiminn.

Dennis gamli Quaid hefur einnig verið ráðinn í myndina, og mun hann leika hlutverk séra Moore, sem John Lithow lék í upprunalegu myndinni. Miles Teller krækti sér svo í hlutverk Willar, sem Chris Penn heitinn, bróðir Sean Penn, lék upprunalega. Julianne Hough sem komið hefur fram í Dancing With The Stars, hefur verið ráðin í hlutverk Ariel, sem Lori Singer lék áður.

Kvikmyndin, sem er skrifuð og leikstýrt af Craig Brewer, verður frumsýnd þann 1. apríl 2011.

Í frétt Reuters segir að upprunalega hafi Kenny Ortega átt að leikstýra myndinni og ungstjarnan Zac Efron átti að leika aðalhlutverkið. Ekki varð þó úr því að Efron tæki hlutverkið að sér, og Chace Crawford var þá nefndur til sögunnar, en hann datt úr skaftinu í apríl. Síðan hafa menn leitað dyrum og dyngjum að vænlegum aðalleikara, og duttu loksins niður á Wormald, en hann hefur auk þess að dansa hjá Timberlake komið fram í þáttunum Dancelife á MTV.

Framleiðendur eru greinilega himinlifandi yfir að hafa fengið Wormald til að taka að sér verkefnið. „Þegar við fundum Kevin Bacon vorum við bæði spenntir og þakklátir, en núna vissum við að það þyrfti verulega heppni til að hitta á sambærilegan leikara og Bacon,“ sagði framleiðandinn Craig Zadan, en hann framleiddi einnig upprunalegu myndina. „Núna, áratugum síðar, sannar Kenny Wormald að ævintýrin gerast enn.“

Dansahöfundur myndarinnar er Jamal Sims, sem nú síðast gerði dansa fyrir Rent í Hollywood Bowl.

„Ég sá Footloose í bíóinu í heimabæ mínum þegar ég var 13 ára gamall, og hún breytti lífi mínu,“ sagði Brewer. „Þetta var táningauppreisnarmynd sem fjallaði um átök milli trúar og fjölskyldu í litlum bæ, og tónlistin var frábær. Ég lofa aðdáendum Footloose að ég mun vera trúr upprunalegu myndinni. En ég mun samt þurfa að laga hana að nýjum tímum og mínum stíl,“ segir Brewer, orðinn yfirspenntur yfir verkefninu framundan.

Dennis Quaid lék síðast í Pandorum, Legion og G.I. Joe: The Rise of Cobra. Næst birtist hann svo í Soul Surfer. Teller birtist næst í The Rabbit Hole eftir John Camoron Mitchell,ásamt Nicole Kidman og Aaron Eckhart.

Kevin Bacon pælir í endurgerðinni á Footloose.