Hitchcock, sauðfé og Cruise

Notendur eru með allra sprækasta móti núna og dæla inn umfjöllunum um myndir nýjar og gamlar, og fögnum við því mjög hér á kvikmyndir.is

Heimir Bjarnson skrifar gagnrýni um nýjustu mynd Tom Cruise og Cameron Diaz, Knight and Day, undir fyrirsögninni Tom Cruise is back!. Heimir er þónokkuð hrifinn af myndinni og gefur henni sjö stjörnur af tíu mögulegum. „Basically, öll atriði með Tom Cruise eru solid, ekki meistaraverk en samt solid. Með öðrum leikara en Cruise hefði þessi mynd getað lækkað mikið í einkunn,“ segir Heimir.

Sigurjón Eðvarðsson skrifar um skepnu sem stendur hjörtum okkar Íslendinga nær, sem er sauðkindin. Hann skrifar umfjöllun um myndina Black Sheep undir yfirskriftinni Kindurnar eru gáfaðri en við höldum. Hann er nokkuð örlátur á stjörnurnar og gefur einar 7 stjörnur eins og Heimir. „Þessar kindur eru náttúrulega svo vitlausar greyin að það er ekki annað en hægt að hlæja af þessari ræmu, sérstaklega að nota þær sem stökkbreyttar verur sem reyna að éta hold annarra fólks.“

Þá er það að lokum umfjöllun eftir Sæunni Gísladóttur um eina gamla og góða,North by Northwest, eftir meistara hrollvekjunnar Alfred Hitchcock,frá árinu 1959. Sæunn er stórhrifin af myndinni og gefur henni næstum fullt hús, eða níu stjörnur. „Myndin er eins og flestar Hitchcock myndirnar meistaraverk, maður heldur stöðugt á meðan maður horfir á hana að maður sé búinn að fatta hana en þá kemur annað ,,twist“ í hana. Hitchcock leikur sér oft við hugmyndina um ranga manninn þar sem einhver er talinn vera sá sem hann er ekki og þetta tekst mjög vel í þessari mynd,“ segir Sæunn meðal annars í umfjöllun sinni.