Smellir og skellir bíósumarsins

Þá er bíósumarið 2010 rétt að baki og maður kemst ekki hjá því að kryfja það aðeins og auðvitað forvitnast um hvað fólki fannst almennt um það. Ég mun viðurkenna það strax að ég var ekkert sérlega bjartsýnn yfir sumrinu, og ég held að ég hafi fyrirfram verið almennilega spenntur fyrir kannski þremur myndum allt í allt. Sem betur fer voru fáeinir titlar sem komu þægilega á óvart og vonbrigði voru ekki mikil (segir samt ekkert þar sem ég gerði mér einungis væntingar gagnvart þremur myndum – eins og ég var að enda við að segja). Annars voru hlægilega margar myndir sem litu ekkert út fyrir að vera sérstakar, og voru síðan einmitt EKKERT sérstakar.

Hérna vil ég koma með mína upptalningu yfir þær myndir sem virkuðu og feiluðu:

.:SMELLIR:. (í stafrófsröð)

Ath. Þessi grein tengist aðsóknartölum ekki neitt, heldur miða ég við hvað mér fannst um ræmurnar. Ég hvet síðan ykkur til að kommenta og segja ykkar skoðanir á sumrinu.

– THE A-TEAM

Hér er mynd sem kom mér alveg æðislega á óvart! Af öllum spennumyndum sumarsins þá var þessi sú allra ýktasta, hraðasta, einfaldasta en samt ein sú skemmtilegasta. Myndin setti sér einungis það markmið að vera yfirdrifin og var rosastolt af því. Leikararnir virkuðu allir saman, stíllinn smellpassaði og hasarinn var ekki bara fjörugur heldur hafði hann bilaðan húmor í þokkabót.

Eitt svalasta atriði ársins er líka í þessari mynd, þegar Neeson byrjar að segja brandara („Satan walks into this bar…“) á hinum furðulegasta tíma.

– DESPICABLE ME

Alveg á mörkunum hjá mér, en þar sem myndin er krúttleg, litrík og pínu frumleg (en líka fáránlega klisjukennd!) þá gef ég henni smá séns. Gulu minion-arnir gerðu hana líka tímans virði og ég vil benda fólki sérstaklega á það að hún er eitt það flottasta sem hefur komið út í þrívídd síðan How to Train your Dragon, og Avatar þar áður.

– THE EXPENDABLES

Svöl, hröð og kemur sér beint að efninu. Skemmtileg mynd sem hefði samt léttilega getað orðið frábær.

– GET HIM TO THE GREEK

Mynd sem kom, skemmti fólki og fór síðan! Hef ekki mikið heyrt talað um hana síðan. Synd. Hún er nefnilega tussufyndin og miklu viðkunnanlegri en maður átti von á. Fólk átti hér von á algjöru spin-off floppi en svo reyndist hún bara vera einhver óvæntasta mynd sumarsins. P. Diddy fór síðan alveg á kostum! Er enn að velta fyrir mér hvor var fyndnasti maður sumarsins, hann eða Michael Keaton.

THE KARATE KID

Önnur sem er alveg á mörkunum. Margt gott í henni (t.d. Jackie Chan, myndatakan og slagsmálin) en líka dágóður skammtur af því sem kanarnir kalla „cheesefest.“

Mér fannst hún þó aðeins betri en upprunalega, sem eldist alls ekki vel.

INCEPTION

Döö…!

Held að það sé ekkert sem hægt er að segja um þessa mynd sem 1000 aðrir íslendingar hafa ekki þegar sagt. Besta mynd ársins án efa. Gólfin í kvikmyndahúsunum voru rennandi blaut eftir hverja sýningu.

– THE OTHER GUYS

Massívt steikt og furðu vel gerð spunamynd. Ekki tebolli allra, en þeir sem nutu Anchorman munu án efa sjá eitthvað gott í þessari.

PS. Michael Keaton er æðislegur.

– ROBIN HOOD

Er ég sá eini sem fílaði þessa??

– SCOTT PILGRIM VS. THE WORLD

Mynd sem fólk annaðhvort fílar (og þá Í BOTN!!) eða hatar. Mér persónulega fannst hún (sjokkerandi…) ÆÐI. En sama hvað manni finnst um hana þá er erfitt að neita því hversu fersk, sérstök og brjáluð hún er. Húmorinn virkar kannski ekki á alla, en viðurkennið það, hún lítur rosalega vel út! Ég hlæ ennþá inni í mér í hvert sinn sem ég hugsa orðin Vegan Police.

– TOY STORY 3

Þessi er í 3. sæti hjá mér yfir bestu myndir ársins. Hún hefur allt sem hún þarf; Fjölskylduvænan (samt pííínu dökkan) hasar, geðveikan húmor, fallegan boðskap og tröllvaxið hjarta. Endir myndarinnar er pínu umdeildur. Sumum finnst hann vera alltof væminn á meðan aðrir fá tár í augun bara við það að hugsa um hann. Ég myndi frekar setja mig í seinni hópinn.

Sökkuð þrívídd samt. Og já, Michael Keaton er æðislegur!

.:SKELLIR:. (dittó)

– BOÐBERI – Hún reyndi þó eitthvað nýtt.

– ECLIPSE – Án efa sú skásta í röðinni og annað en Twilight og New Moon þá hefur þessi smá húmor fyrir efninu og tekur sig ekki eins alvarlega. Endirinn er samt frekar dauður og dramað er enn frekar kjánalegt.

– GROWN UPS – Hvenær sáum við seinast góða/fyndna mynd sem sameinaði m.a. Sandler og Rob Schneider? Nei, í alvöru…?

– IRON MAN 2 – Þunn framhaldssaga eða teygð upphitun fyrir Avengers-myndina? Favreau sýnir hasarnum óvenju lítinn áhuga. Skamm.

– KNIGHT AND DAY – Mynd sem virkar þau skipti sem hún gerir eitthvað nýtt. Það er samt alls ekki nógu oft.

– KILLERS – *Geisp*

– THE LAST AIRBENDER – Þegiðu, M. Night!

– THE LOSERS – Betri titill: The B-Team

– A NIGHTMARE ON ELM STREET – Svæfandi mynd. Hvílík kaldhæðni.

– PREDATORS – Ekki nógu töff. Full hæg og auðgleymd.

– THE PRINCE OF PERSIA – Bruckheimer-froða nr. 1. Vel gerð en alltof stöðluð.

– SALT – Næææstum því þess virði að fá meðmæli. Myndin er því miður bara fullmikil uppskrift til að eiga heima í „kúl“ grúppu sumarmyndanna.

– SEX AND THE CITY 2 – Stelpur: eins gott að þið kvartið ekki yfir því að kæró dró ykkur á Expendables. Sú mynd var ekki nema 90 mínútur. Þessi er nánast tvöfalt lengri. Ekki svo segja að við gerum ekki fórnir fyrir ykkur 😉

– SHREK FOREVER AFTER – Allt það sem Toy Story 3 var ekki.

– THE SORCERER’S APPRENTICE – Önnur Bruckheimer-froða. Ekkert spes.

Hvað segið þið annars?

– Hvernig fannst ykkur sumarið og hvað stóð uppúr?
– Hvað feilaði?
– Hvernig er það í samanburði við sumarið í fyrra?

Lát í ykkur heyra…

Kv.
T.V.