Þrívíður Jigsaw á toppinn í Bandaríkjunum

Geðsjúki fjöldamorðinginn Jigsaw fór beint á topp bíóaðsóknarlistans í Bandaríkjunum nú um helgina, en eins og líklega flestir vita er Jigsaw aðalpersónan í Saw hryllingsmyndunum.

Þessi nýjasta, og reyndar síðasta mynd í Saw myndaflokknum, heitir Saw 3D og þénaði um 24,2 milljónir Bandaríkjadala, samkvæmt fyrstu áætlunum. Það þýðir að tekjur af myndinni eru 10 milljónum dala hærri en síðasta mynd, Saw Vl tók inn sína frumsýningarhelgi í fyrra.

„Á síðasta ári sögðu margir, jæja, nú er komið gott,“ sagði David Spitz, yfirmaður dreifingar hjá Lionsgate fyrirtækinu. „En vikuna á eftir vorum við allir mjög vonsviknir og hugsuðum, hvað getum við gert til að hressa upp á seríuna? Þá datt okkur í hug að taka næstu mynd í þrívídd, og lýsa því yfir að um síðustu myndina yrði að ræða.“

Þetta trikk virðist hafa borgað sig, þó svo að myndin hafi þénað minna en Saw myndir númer 2,3,4 og 5, en tekjur af frumýningarhelgum þeirra allra fóru yfir 30 milljónir dala.

Saw 3D var líka eftirbátur toppmyndar síðustu helgar, sem einnig var hryllingsmynd, en Paranormal Activity 2, opnaði með 40,7 milljónir dala þá helgi, en fór niður í annað sæti þessa helgina, með samanlagðar tekjur báðar helgarnar upp á 65,7 milljónir dala.

Í þriðja sæti varð svo spennu-gamanmyndin Red og er nú komin með eina 58,9 milljónir dala í kassann samanlagt.

Jackass 3D brunaði yfir 100 milljón dala markið um helgina, og lenti í fjórða sæti aðsóknarlistans, með 8,4 milljónir dala í tekjur, og er komin með alls 101,6 milljónir dala í tekjur.

Conviction, mynd með Hilary Swank í aðalhlutverkinu, lenti í tíunda sæti, en myndin er sönn saga um konu sem fer í lagaskóla til að geta frelsað bróður sinn úr fangelsi.

Hér er listinn í heild sinni:

1. „Saw 3D,“ $24.2 million.

2. „Paranormal Activity 2,“ $16.5 million.

3. „Red,“ $10.8 million.

4. „Jackass 3D,“ $8.4 million.

5. „Hereafter,“ $6.3 million.

6. „Secretariat,“ $5.1 million.

7. „The Social Network,“ $4.7 million.

8. „Life as We Know It,“ $4 million.

9. „The Town,“ $2 million.

10. „Conviction,“ $1.8 million.