Harry Potter hársbreidd fyrir ofan Tangled í Bandaríkjunum

Sjöunda myndin um Harry Potter, The Deathly Hallows – Part I, fékk aldeilis keppni um toppsætið á sinni annarri sýningarhelgi í Bandaríkjunum. Disney gaf þá út teiknimyndaævintýrið Tangled og var þessi 50. stóra teiknimynd þeirra næstum búin að gera dvöl Harrys á toppnum styttri en búist var við. Það fór þó svo að Harry hafði betur með um 50,3 milljónir dollara í kassann, á meðan Tangled endaði með 49,1 milljón frá föstudegi til sunnudags, sem er þó ekkert slor. Það kom þó Harry til bjargar að Tangled var frumsýnd á miðvikudaginn og hefði þeim tveimur dögum verið bætt við hefði Tangled endað fyrir ofan galdradrenginn.

Þrátt fyrir þessar háu tölur efstu tveggja myndanna voru þrjár aðrar myndir frumsýndar um helgina á landsvísu, en söngvamyndin Burlesque, með Christinu Aguilera og Cher í aðalhlutverkum, stóð sig best þeirra. Náði hún fjórða sætinu á eftir Megamind, með tæpar 12 milljónir dollara í tekjur. Rómantíska gamandramað Love and Other Drugs endaði í sjötta sæti á eftir Unstoppable með rétt tæpar 10 millur og loks varð hasarmyndin Faster í sjöunda sæti með rúmar 8 milljónir í kassanum. Þær myndir sem fylltu svo út í topp 10-listann voru Due Date, The Next Three Days og Morning Glory.

Fimmta nýja myndin náði svo óvænt inn á topp 20-listann, en The King’s Speech, sögulegt drama með Colin Firth í aðalhlutverki og hefur verið rætt um sem mögulegur Óskarssmellur, smellti sér í 19. sætið með 350.000 dollara í tekjur. Það virðist kannski ekki mikið, en þegar litið er á að myndin var aðeins sýnd í fjórum kvikmyndahúsum kemur í ljós að myndin náði hæstu tekjum pr. bíó af öllum myndum á árinu og hvorki meira né minna en 20. stærstu opnunarhelgi allra tíma pr. bíó í Bandaríkjunum. Það verður því spennandi að fylgjast með framgöngu þessarar myndar næstu vikur og mánuði.

-Erlingur Grétar