Ben Foster kominn til Baltasars

Bandaríska endurgerðin á Reykjavík-Rotterdam, Contraband, sem Baltasar Kormákur er að undirbúa í Bandaríkjunum, er á fullu skriði og leikarar eru enn að bætast í hópinn. Nú síðast bættist leikarinn Ben Foster við.
Í myndinni leikur Mark Wahlberg fyrrum smyglara sem er að reyna að lifa heiðvirðu lífi og vinnur fyrir sér sem næturvörður. Hann þarf þó að endurskoða stöðu sína þegar eiginkona hans, leikin af Kate Beckinsdale, tilkynnir honum að bróðir hennar hafi klúðrað smyglverkefni og honum hafi verið hótað öllu illu. Wahlberg verður því að snúa aftur í veröld glæpanna í eitt skiptið enn til að hjálpa bróðurnum.
Foster mun leika besta vin Wahlbergs og helsta aðstoðarmann sem hjálpar honum þegar öll sund virðast lokuð.
Fyrsti tökudagur Contraband hefur ekki verið ákveðinn endanlega, að því er segir í Empire Online tímaritinu, og beðið er eftir að leikararnir ljúki verkefnum sem þeir eru fastir í núna.
Foster er til dæmis að vinna að lögguspillingardramanu Rampart ásamt leikstjóranum Oren Moverman. Þeir þurfa þó að spýta í lófana þar sem búið er að ákveða að frumsýna Contraband í mars 2012.