1.000 gestir á franskri kvikmyndahátíð

Rúmlega 1.000 gestir komu um síðustu helgi á franska kvikmyndahátíð sem nú stendur sem hæst í Háskólabíói. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar; Alliance Française í Reykjavík, Sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að opnunarmyndin Potiche, eða Bara húsmóðir, sé vinsælust myndanna 10 sem boðið er upp á, með þriðjung af aðsókninni hingað til. Fast á hæla hennar koma myndirnar Ævintýri Adèle Blanc-Sec eftir Luc Besson og Hvítar lygar, en sú mynd hefur, samkvæmt tilkynningunni, slegið öll aðsóknarmet í Frakklandi.

Þetta er í 11. sinn sem frönsk kvikmyndahátíð er haldin hér á landi. Hátíðin stendur til 3. febrúar.