Fimm þúsund sáu franskar myndir – Potiche vinsælust

Rúmlega fimm þúsund gestir sóttu franska kvikmyndahátíð í Háskólabíói sem lauk nú í kvöld, fimmtudagskvöld. Hátíðin hófst þann 21. janúar og sýndar voru 10 gæðamyndir.
Í tilkynningu frá Senu og Græna ljósinu segir að opnunarmyndin POTICHE eða Bara húsmóðir, með þeim Catherine Deneuve og Gerard Depardieu í aðahlutverkum, hafi verið langvinsælasta mynd hátíðarinnar með hátt í 2 þúsund selda miða, en vegna fjölda áskorana verður myndin sýnd áfram í Háskólabíói í nokkra daga.

Í tilkynningunni segir einnig að kvikmyndirnar Ævintýri Adèle Blanc-Sec eftir Luc Besson og Hvítar lygar sem slegið hefur öll aðsóknarmet í Frakklandi, hafi einnig verið mjög vinsælar á hátíðinni en þær verða einnig sýndar áfram í nokkra daga í Bíó Paradís.