Potter-maraþon: Goblet of Fire


Ef menn eru ekki staddir á útihátíðum núna eru þeir eflaust að telja niður klukkutímanna í The Deathly Hallows í næstu viku og frábæru dómarnir eru með öllum líkindum ekki að bæla niður í spenningnum. Annars, ef þið hafið fylgst með maraþoninu þá ættuð þið að vita að serían er almennilega komin á flug með þessari næstu mynd – með innkomu Ralph Fiennes. Cuarón er farinn úr leikstjórasætinu (og meðfylgjandi art-stíllinn hans) en það erfitt að grenja það að leikstjóri Donnie Brasco kom inn í staðinn. Það mun vera Mike Newell, sem á þessum tímapunkti var fyrsti breski leikstjóri seríunnar.

ÁR #4: HARRY POTTER AND THE GOBLET OF FIRE

Sennilegast sú Potter-mynd sem Twilight-aðdáendur elska mest.

IMDB einkunn: 7,5
RottenTomatoes prósenta: 87%
Ebert: 3.5/4

Umfjöllun: Skrifuð af Bjarna Benediktssyni þann 1. des 2005

Harry Potter and the Goblet of Fire er allt öðruvísi en hinar þrjár myndirnar, hún er myrkari, lengri og flottari. Goblet of Fire er mín uppáhalds Harry Potter bók, og þess vegna var ég hálf hræddur, þegar ég komst að því að myndin væri ekki nema þrír klukkutímar, og því meira en helmingnum af bókinni sleppt. Þó að myndin sé í styttra lagi (miðað við bókina) sleppir leikstjórinn Mike Newell næstum engu mikilvægu (hefði þó viljað sjá Ludo Bagman, Vinky og fleiri atriði með Ritu Skeeter).

Tónlistin hefur verið færð úr höndum John Williams til Patricks Doyle. Tónlist hans er flott, en ekki næstum jafn góð og tónlist John Williams. Hann notast þó við nokkur stef úr gömlu myndunum, en breytir þeim og gerir þau myrkari. Nokkrir nýir leikarar hafa bæst í hópinn t.d. Brendan Gleeson sem hinn sturlaði kennari í vörnum gegn myrku öflunum, Mad Eye Moody, Ralph Fiennes sem leikur sjálfan Lord Voldemort, og Miranda Richardson sem blaðakonan Rita Skeeter. Brendan Gleeson stelur senunni sem Moody, undir lokin var ég meira að segja orðinn hálf hræddur við hann. Krakkarnir í myndinni eru allir farnir að leika miklu betur, þá sérstaklega Daniel Radcliffe sem var ekkert sérstakur í hinum myndunum. Eini leikarinn sem er ekki að standa sig er Michael Gambon sem Albus Dumbledore. Það góða við hann er að hann reynir ekki að herma eftir Richard Harris, heldur reynir hann að skapa sinn eigin Dumbledore. Það versta er að hans Dumbledore er alls ekki góður. Dumbledore á að vera svona rólegur persónuleiki eins og Richard Harris gerði hann, ekki æstur gamall maður sem virðist alveg vera að missa þolinmæðina, öskrar á börnin til að fá þau til að hafa hljóð og hristir Harry harkalega eftir atvikið með bikarinn.

Tæknibrellurnar eru frábærar, miklu betri en í hinum þremur myndunum. Atriðið með drekana var frábært og sömuleiðis Black Lake atriðið. Samt vantaði allar gildrur í völundarhúsið. Harry Potter er nú orðinn 14 ára og kominn á 4. ár í Hogwarts skóla. Í byrjun skólaársins er þeim tilkynnt að einn nemandi úr skólanum taki þátt í svokölluðum Þrígaldraleikum (Tri-Wizard Tournament) með tveimur öðrum skólum. Þeir sem vilja keppa þurfa aðeins að skrifa nafnið sitt á pergament, og henda því í loga Eldbikarsins. Nemendur þurfa að vera orðnir 17 ára til að geta skráð sig, en þegar nafn Harrys er dregið út halda allir að hann hafi svindlað, þó að hann hafi ekki komið nálægt bikarnum. Hann þarf því að keppa í Þrígaldraleikunum og einnig að komast að því hver setti nafnið hans í Eldbikarinn. Myndin inniheldur nokkra galla en samt ekkert of stóra. Í fyrsta lagi er það útlitið á nokkrum persónum myndarinnar, t.d. Mad Eye Moody, galdraaugað hans hangir í bandi, og lítur frekar út fyrir að vera leppur en galdraauga. Síðan eru það þessir fáránlegu búningar sem Drápararnir klæðast, beinagrindagrímurnar og Toppmjóu hattarnir. Í síðasta lagi fer Harry aðeins í tvo tíma, hjá Mad Eye Moody og Snape. Er þetta ekki skóli eða hvað??

Mike Newell lagar hins vegar nokkur atriði sem komu fram í bókunum en ekki í myndunum, t.d. hárið á Harry, sem var slétt og fínt í hinum myndunum, er nú úfið eins og í bókinni. Þótt að helstu atriði myndarinnar komi fram eru sum atriði alveg óskiljanleg fyrir þá sem ekki hafa lesið bækurnar, það eru mörg atriði sem ekki eru útskýrð t.d. Priori Incantatem galdurinn. The Goblet of Fire kemur semsagt ágætlega (ef ekki vel) út sem kvikmynd og ég vona að Harry Potter myndirnar haldi áfram að vera eins og þessi.

Þá spyr ég: Hvað finnst YKKUR um myndina og hvaða einkunn myndi hún fá?
T.V.