Alexandra ráðin í formúlumynd Howards

Þýska leikkonan Alexandra Maria Lara, sem er þekkt meðal annars fyrir leik sinn í myndinni um fall Hitlers, Downfall, og The Reader, hefur verið ráðin í aðalhlutverk í næstu mynd Ron Howard, Rush.
Fyrir í leikarahópnum er Thor – leikarinn Chris Hemsworth, sem leikur breska formúluökuþórinn James Hunt. Þá er einnig búið að ráða Íslandsvininn Daniel Brühl, sem lék í Kóngavegi og Inglorious Basterds, en hann leikur hinn þekkta ökuþór Niki Lauda.

Myndin er skrifuð af Peter Morgan og í henni er sögð sagan af Lauda og Hunt, og einvígjum þeirra í keppnum í formúlu á áttunda áratug síðustu aldar.

Niki Lauda lenti í slæmum árekstri árið 1976, en sneri aftur sex vikum síðar til að keppa á móti Hunt. Bíllinn fór í tætlur og það kviknaði í honum, sjá vídeó hér að neðan.

Cross Creek Pictures fjármagnar myndina, en Brian Grazer og Howard framleiða ásamt félögunum í Working Title, Tim Bevan og Eric Fellner, og Brian Olive frá Cross Creek.