Mildur og bragðlaus sopi

Til þess að fjalla um þessa mynd þarf maður helst að minnast á költklassíkina Fear and Loathing in Las Vegas. Hún var kannski pínulítið stefnulaus, fráhrindandi og kaotísk, en jafnvel þeir sem hata hana myndu viðurkenna að hún er mjög einstök sýra. Að sjálfsögðu mætti segja það sama um bókina – og manninn – sem hún er byggð á. Myndin fylgdi skrifum rugludallsins Hunter S. Thompson alveg óvenjulega sterkt og fangaði þessa sérstöku rödd sem hann hafði ákaflega vel þó svo að myndin hafi verið bullandi óreiða sem fór eftir eigin reglum. Ég hef alltaf verið frekar hrifinn af henni samt.

Persónulega er ég feginn að hafa ekki horft á The Rum Diary með því hugarfari að sjá eitthvað í líkingu við Terry Gilliam-myndina, en það er bara vegna þess að ég vissi betur fyrirfram. Ég efast samt ekki um að margir geri það, og þá bara út af þeirri tengingu að bókin er skrifuð af sama manni og Johnny Depp leikur aðalhlutverkið (semsagt höfundinn) í báðum myndunum. Þeir sem búast við einhverju sambærilegu munu verða enn þá ósáttari heldur en þeir sem gera það ekki.

Maður finnur auðveldlega fyrir því að ræturnar megi rekja til sama penna en The Rum Diary er miklu hefðbundnara, þurrara og geldara kvikmyndaverk. Það er reyndar alveg jafnóskipulagt en ekki á jafnathyglisverðan máta. Mikið hefði það verið vel þegið að fá þennan sturlaða absúrdleik Gilliams inn í þessa mynd. Henni hefði svo sannarlega ekki veitt af sterkari keim því þetta er skömmustulega mildur og bragðlaus sopi.

Ég las reyndar aldrei The Rum Diary-bókina, en það var löngu vitað að hún hafði verið draumaverkefni Depps löngu áður en rætt var um að gera hana að bíómynd. Depp og Thompson voru mjög nánir og hefur það tekið meira en blóð, svita og tár að koma aðlöguninni upp á skjáinn loksins. Reyndar er sagan á bak við framleiðsluna hundrað sinnum athyglisverðari en myndin sjálf. Í hnotskurn hefur Depp – sem er líka einn af framleiðendunum – reynt að gera hana að veruleika í mörg ár. Þróunin gekk alltaf misvel, leikarar komu og fóru og eftir harða baráttu við alkóhólisma (á meðan á framleiðslu stóð) náði leikstjórinn og handritshöfundurinn Bruce Robinson loksins að skila frá sér kláruðu verki. Dálítið skondið hvernig lífið hermir eftir listinni stundum, en mér skilst nú reyndar að Depp hafi viljað fá þennan leikstjóra vegna tengingu hans við átakanlega áfengisneyslu.

Ljóst er að stórleikaranum hefur alls ekki staðið á sama um þetta verk og sjálfur er ég forvitinn að vita hvað honum finnst um lokaniðurstöðuna í dag.

The Rum Diary hefur greinilega áhugann á réttum stað en efnislega séð flæðir hún út um allt. Handritið nær sjaldan markvissri einbeitingu á mikilvægustu hlutunum; aðalpersónan fær aldrei almennilegan fókus og annaðhvort eru aukapersónurnar ósköp vanþróaðar eða ekki bara nógu áhugaverðar til að hægt sé að réttlæta skjátíma þeirra eða lengdartímann í heild sinni. Myndin er hæg og frekar langdregin vegna þess að oft koma fyrir kaflar þar sem maður missir
allan áhugann á því sem gerist á skjánum, þökk sé þessu illa unna handriti. Svo er heilt ástarsöguplott til staðar sem virðist vera gríðarlega mikilvægt en virkar eins og það sé klaufalega kramið inn í frásögnina.

Það vantar í rauninni bara meira af öllu; meiri persónusköpun, meiri sögu, meiri tilgang! Leikstjórinn er heldur ekki að skora nein stig með því að loka sögunni á mjög ófullnægjandi hátt, líkt og tíminn hafi verið á þrotum og Robinson hafi þurft að ljúka þessu með því að binda asnalega slaufu á endinn með því að stafa út (bókstaflega) það sem gerist eftir síðustu senuna. Aaron Eckhart fékk líka frekar vondan díl með því að vera þátttakandi í þessari mynd. Hann gerir mjög lítið (fyrir utan það að nudda sér upp við Amber Heard – heppna gimp!), skilur ekkert eftir sig og gengur svo bara út úr myndinni eins og hvorki persónunni né litlu sögunni hans skiptir einhverju máli þegar uppi er staðið.

Kannski var bókin svona sundurtætt líka. Höfundurinn var nú allt annað en hefðbundinn. Það er nú ekki eins og Fear and Loathing-myndin hafi strúktúrað sig fullkomlega eða gert allt rétt, en að minnsta kosti var ýmislegt við hana til þess að halda athyglinni manns frá handritsgöllunum, hvort sem það var svartur húmor, sérkennilegt lúkk eða abstrakt senur. The Rum Diary hefur lítið sem ekkert af slíku og ég gæti talið þau skipti upp með annarri hendi þar sem hún verður annaðhvort mjög fyndin eða mátulega villt. Það er reyndar ein tripp-sena í allri myndinni sem minnir á Gilliam-klassíkina, en jafnvel hún virðist vera nokkuð tilgangslaus og ekki heldur passa inn.

Thompson-merkin eru sem betur fer til staðar og frasarnir eða samtölin sem bera hans einkenni halda áhuganum uppi við og við. Svo er ekki hægt annað en að segja að Amber Heard bæti aðeins upp bara með líkama sínum. Sú leikkona er stundum svo heit að hún gæti léttilega talist sinn eigin draumórageiri. Það kæmi heldur ekki á óvart ef lesbíum í heiminum færu fjölgandi einungis út af tilvist hennar.


(5/10)

Hvernig fannst þér The Rum Diary?