Skemmtilegur sori #1 – The Three Musketeers


(Skemmtilegur sori er nýr fastur liður á síðunni þar sem undirritaður horfir á mynd sem er svo ólýsanlega slæm að hún breytist ósjálfrátt í stórskemmtilega drasl-afþreyingu. Greinin gengur út á það að kryfja umrædda mynd og finna út nákvæmlega hvað það er sem gerir hana svona misheppnaða.)


THE THREE MUSKETEERS (2011)

Í langan tíma taldi ég að spennumyndin The Musketeer (frá 2001) með Justin Chambers væri það hlægilegasta og sársaukafyllsta sem hefði snert blaðsíður eftir Alexandre Dumas. Tíu árum síðar kemur Paul W.S. Anderson eins og kallaður og gerir sitt besta til að toppa hana, gjörsamlega ómeðvitaður um það.

Við erum að tala um leikstjóra sem hefur oft fengið frábært efni í hendurnar en tekur síðan frústrerandi ákvarðanir sem koma í veg fyrir að góð mynd verði til úr vinnubrögðum hans. Gleymum því ekki að þetta er sami maður og gerði PG-13 útgáfurnar af Mortal Kombat og Alien vs. Predator. Mér er svosem sama þegar hann tekur vond handrit og gerir úr þeim vondar bíómyndir með ágætum hasar og stíl, en þegar hann misþyrmir Skyttunum þremur eins og hæper unglingur þá verður enn sorglegra að sjá afraksturinn.

Undanfarið hefur aðeins tvennt verið áberandi hjá Anderson: Hann elskar að ofnota slow-motion (því það er svo töff, er það ekki?) og nýtur þess í botn að monta sig yfir því hvað eiginkonan hans er heit. Milla Jovovich hefur staðið sig vel áður sem leikkona en hún hefur líka staðið sig hörmulega, oftar. Í myndum eins og Resident Evil er mér meira eða minna skítsama um frammistöðu hennar, en þegar Anderson treður henni í mynd eins og The Three Musketeers – sem hún virðist alls ekki eiga heima í – þá kemur hann bara verr út.

GALLAR:

Ég sá þessa mynd í bíó og fannst hún vera ein skemmtilegasta lélega mynd sem kom út árið 2011. Hún var svo hallærislega vond að ég er meira segja nálægt því að setja hana í einhvers konar þroskaheft uppáhald. En hvers vegna er myndin svona slæm? Varla getur Jovovich verið eina ástæðan?

Eftir að hafa horft á þessa mynd í annað sinn ákvað ég að punkta niður hjá mér nokkuð ýtarlegan (SPOILER)lista yfir því sem er að þessari mynd. Og bara upp á grínið, þá punktaði ég gallanna niður í réttri tímaröð.

Skellið nú þessari tjöru í tækið og förum saman í gegnum það sem fór úrskeiðis! Ég afsaka sletturnar fyrirfram og tek það fram að þetta mun vera mjög nördaleg upptalning.


Jæja, hvar á að byrja? Jú, ég veit…

Nr. 1. Asnalegir og handahófskenndir titlar í upphafssenunni. Ég skil svosem ákvörðunina að kynna Skytturnar þrjár með nafni, en hvað var málið með hitt? (t.d. Milady, Da Vinci’s Vault…)

Nr. 2. Það eru varla liðnar fimm mínútur og strax er Milla Jovovich farin að hirða athyglina og er vægast sagt „glorify-uð“ í drasl af eiginmanni sínum. Hún fær þrjú stór „ég-er-svo-töff“ áhættuatriði, og hún var ekki einu sinni það stór karakter í bókinni (!). Ef Anderson vissi að hann ætlaði að eyðileggja upprunalegu söguna svona mikið gat hann í það minnsta beðið í svona hálftíma.

Nr. 3. Ein sena með Orlando Bloom og strax finnst manni hann vera kolrangur maður í þetta hlægilega hlutverk. Það er eins gott að Ridley Scott sjái ekki til hans í þessari mynd.

Nr. 4. Þarf d’Artagnan virkilega að vera svona áberandi bandarískur? Eða verra, þarf senan með pabba hans að vera svona massívt mikil exposition-froða?! Anderson hlýtur að vera með vaxlit fastan lengst í eyranu eða eitthvað sambærilegt til að hemla á þroskanum hans, því það getur ekki verið að hann hafi séð þetta sem náttúrulega leið til þess að koma sumum upplýsingum til skila!

Það hefði verið skarpara að rjúfa fjórða veginn og gera grín að þessu.

Nr. 5. Ég elska hvað allt er hreint og fínt í París þarna á átjándu öld. Engin merki um hestaskít á götunni, heldur allt svo pússað og enginn er almennilega skítugur.

Einmitt, já. Ekkert óvenjulegt við það.

Nr. 6. Ég fatta það að frakkakongur á þessum tíma hafi átt að vera pínu strákslega kvenlegur, en HÆTTIÐ NÚ ALVEG…
Leikarinn sem Anderson valdi er meira Michael Jackson heldur en Loðvík (18.?) frakkakonungur, mínus kvenlega röddin. Ástin á milli hans og drottningarinnar á að skipta sögunni heilmiklu máli en þessi karakter er ekki að selja okkur hana.

Langt í frá.

Nr. 7. Ég hata Planchett! Hata, hata, hata hann. Hann segir jafnvel sjálfur að hann er tilgangslaus, eða eins og hann orðar það: „A big, huge waste of space,“ og það gæti ekki átt betur við hann. Þetta Ricky Gervais-wannabe á ekkert heima í þessari mynd, frekar en ýmsir aðrir, ef út í það er farið.

Nr. 8. Juno Temple, sem leikur drottninguna, á EKKI heima í períódumynd, og heldur ekki Gabriella Wilde. Að minnsta kosti ekki períódumynd eftir Paul W.S. Anderson (hann á nú bara helst að láta svoleiðis kvikmyndir alveg í friði!). Ég gat einhvern veginn alltaf ímyndað mér að undir þessum átjándu aldar kjólum voru þær með 3G símanna sína í vasanum.

Nr. 9. Oft í myndum er það sem hægt er að kalla hugrænt valdatafl, þar sem tvær persónur af sitthvorum skoðunum eru látnar tefla. Þetta er oft gert til að troða symbolisma inn í senurnar. Ef þetta er vel gert, þá virkar það frábærlega og skapar mjög lúmska og óáberandi spennu á milli andstæðinga.

Þessi mynd inniheldur slíka senu, og eins og menn geta ímyndað sér, þá fellur hún beint á andlitið. Hún reynir af fullum krafti að vera snjöll og eftirminnileg, en hún er bara sorglega vandræðaleg. Leikararnir eru heldur ekki beinlínis sannfærandi, ef það segir eitthvað.

Nr. 10. Loftskip?!?!

(jú, veistu. Það er dálítið heimskulega töff)

11. Bloom hættir ekki að fá mig til þess að brosa á öllum verstu stöðum. Hafið þið einhvern tímann hlegið óvart í jarðarför? Þetta er svolítið þannig. Þessi leikari heldur að hann sé staddur í ógeðslega ýktu leikriti. Hann túlkar illmennið eins og flestir 7 ára krakkar halda að flest öll illmenni eiga að vera í stórmyndum.

Hann er æðislegur!

12. Myndin lítur hræðilega út í 2D! Öðru hverju skoti er stillt upp til þess að vera séð í þrívídd, og það sést kjánalega vel.

13. Eini tilgangurinn með Millu Jovovich-ofnotkuninni er tl að fá hávaxna, bólugrafna, karlkyns unglinga til að hugsa eitthvað í þessum dúr:
„Vó, þessi mynd er geggt kúl. Og ég kann ekkert í sögu!“
(Svo kemur Milla inn, silkimjúk og með tilgerðarlegan kynþokka)
„Nauh! FKN heit gella. Fæ feitan bóner sko…“

14. Christoph Waltz gerir ekki nokkurn skapaðan hlut! Hann er bara þarna til að byggja upp karakterinn Richeleau á sama hátt og Dr. Moriarty kom stundum fyrir í fyrstu Sherlock Holmes-myndinni. Nærvera Waltz spilar samt aldeilis með væntingar áhorfandans, og það er orðið ansi þreytt hvað sumir leikstjórar eru sífellt að reyna að troða sínum eigin Hans Landa inn í myndirnar sínar.

Waltz er góður leikari en það sem gerði Hans Landa góðan var fyrst og fremst handritið, og taktarnir hjá leikaranum gerði gott miklu betra.Það þýðir ekki að setja þennan leikara endalaust í hlutverk vonda kallsins og ætlast til að hann steli senunni. Ef eitthvað, þá er maður núna meira farinn að taka eftir því hvað taktarnir hjá manninum eru alltaf svipaðir. Hann brosir alltaf og talar heilu setningarnar án þess að loka munninum. Skyndilega er maðurinn ekki lengur eins töff og mig minnti.

Eins gott að Tarantino endurmóti hann á ný í Django Unchained.

15. Bjánalegt plott um afbrýðissemi reynist vera aðall sögunnar, þegar það ætti frekar að vera aukaplott. Varla er ætlast til þess að við séum að naga fingurneglurnar yfir því að kvenlegi kóngurinn gæti hugsanlega ekki fengið stóru ástina sína?

16. Söguþráðurinn (sem er álíka þykkur og tannþráður) er reglulega útskýrður, eins og Anderson geri ráð fyrir því að heiladauðu kanarnir eða börnin þeirra (sem þessi mynd er augljóslega gerð fyrir) séu stöðugt að bregða sér frá í pissupásur og poppáfyllingar.

17. Leikstjórinn vill augljóslega trekant með konunni sinni og Orlando Bloom. Merkin eru alls staðar! Hann reynir að þvinga svo mikilli greddu í senurnar þeirra að hálfa væri nóg. Kemistrían á milli þeirra er bara því miður engin. Þau keppast í staðinn um það hvor getur leikið verr. Hann ofleikur af sér feisið, og hún reynir bara ekki neitt.

Síðan virðist Bloom bara allt í einu ákveða að hverfa úr myndinni. Spes…

18. Það verður svo grátlega augljóst að stúdíóið á bakvið þessa mynd vildi gera einhvern hipp bræðing af Pirates- og Sherlock Holmes-myndunum. Það er meira að segja eins og ýmsir ráðgjafar hafa verið fengnir til að stúdera hvernig hin fullkomna blanda myndi t.d. lúkka og hljóma. Tónlistin er svakaleg samstuða á ólíku Hans Zimmer-þemunum. Og nei, ekkert af þessu er meint á góðan hátt þótt áreynslan sé svo mikil að þetta verður allt bara ennþá fyndnara.

19. Ömurlegt bluescreen! Myndin reynir að vera epísk og reynir að blekkja þig til þess að halda að hún sé dýrari en hún er í raun. Góð tilraun. Misheppnuð niðurstaða.

20. Þegar hestavagninn er dreginn upp í loftskipið er ekki bara Jovovich föst inni í honum (sem er hættulegt) heldur er Planchett sitjandi sallarólegur ofan á honum. Hann ætti að fjúka af eftir 20 sekúndur, því hann er dreginn andskoti hátt upp. Æ, alveg rétt. Eðlisfræðilegu lögmálin eru í fríi, og í góðri afþreyingarmynd skiptir það svosem ekki öllu. En er ætlast til þess að við séum með greind á við hamstur? Þurfum við síðan að ræða stelpuna sem er bundin framan á skipið í loftinu? Dauðu viðbrögðin hennar gera hana að kjörkuðustu manneskjunni í allri myndinni.

Frá og með þessu versnar þetta síðan bara.

21. Alveg sama hversu hátt uppi loftskipin eru, þá er vindurinn alltaf í þægilegu lágmarki. Best er samt hve lítill vindurinn er þegar tvö sitthvoru loftskipin stoppa til að hetjan og skúrkurinn geti rætt saman og samið um framhaldið. Eins og vindurinn sé ekki nógu eðlilegur, þá er algjört kraftaverk að seglskipin geti verið kyrrstæð í loftinu. Aðeins of mikill sviðsmyndafílingur kannski? Á þessum tímapunkti er maður reyndar vanur því.

22. Maður getur ekki annað en elskað hvað illmennin eru yfirdrifin og áberandi ill. Loftskipið með beinagrindinni framan á var ekki alveg það sem heilbrigt fólk myndi kalla lúmskt. Þetta eru bara sorgleg mikilmennskubrjálæði.

23. Myndin gengur gjörsamlega af göflunum í lokahasarnum hjá Notre Dame! Edgar Wright gæti ekki einu sinni gert bíómynd sem væri ýktari en þetta! Anderson er alltof sjálfsöruggur í að halda það að hann gæti gert það sem Pirates- og Sherlock-myndirnar eru mikið þekktar fyrir. Kallast vönduð vinnubrögð!

24. „Þrívíddarskotið“ með fljúgandi sverðinu er eitt mesta SKAMM-móment sem Anderson hefur átt. Það segir ekki lítið. Öll skylmingarsenan á milli D´Artagnan og Rochefort er óborganlegur djókur.

25. „SEQUEL-BAIT“ endir #1
– Richelieu (Waltz) er ekki enn orðinn formlega að vonda kallinum. Gefið er frekar í skyn að það verði í næsta ævintýri ef það verður að veruleika, sem ég einhvern veginn efa.

Sequel-bait endir #2
– Bíddu, ha? Jovovich er EKKI dauð?! (Anderson myndi sennilega ekki fá kynlíf í hálft ár ef númer tvö færi í framleiðslu án konunnar sinnar. Kunnið þið að gera svipuhljóð?)

Sequel-bait endir #3
– Bloom er kominn aftur líka!
…og hann tók með sér heilan HERFLOTA! Ábyggilega í kringum 30 loftskip. Lágmark.

Svo endar myndin og áhorfendur eiga að vera smá svekktir (því þetta er auðvitað allt svo gaman! Ekki satt?) en samt um leið spenntir fyrir „næstu“ mynd. Ef ég hefði ekki hlegið mig stjarfan yfir þessum absúrd lokasenum, þá myndi mér líða eins og leikstjórinn væri að reyna að þukla á líkamanum mínum til þess að komast betur í veskið mitt. Sem betur fer borga ég mig ekki bíó.


NIÐURSTAÐA:

Paul W.S. Anderson hatar okkur. Hann hatar okkur fyrir að hata hann fyrir að rústa Resident Evil og Alien vs. Predator. Hann reynir að búa til mynd sem höfðar til krakka og gefur fullorðnum fokk-merki á sama tíma. Honum tekst það! Þetta er eitt af því fáa sem þessi gaur kann. Hann trompar svo pirringinn með því að vera með svipað nafn og einn besti leikstjórinn á lífi í dag (PTA, takk fyrir!).

The Three Musketeers skorar hrikalega hátt í „svo-slæm-að-hún-er-æði“ flokkinum. Það er aldrei dauð sena í henni og kjánaskapurinn er svo mikill að þér fer að líða eins og þú sért vondur fantur sem hlær að blindum krökkum í Laser-Tag.

Ég elska þetta sorp. Skrítið en satt. Þegar mynd gerir svona margt rangt fer hún nánast hringinn, hættir að sökka og byrjar að skemmta þér konunglega í staðinn. Hún móðgar kannski gáfur þínar en bætir það upp með þeirri hégómafullu staðreynd að hún heldur að hún sé í alvörunni að ganga upp sem skotheld afþreyingarmynd. Myndin má samt eiga það að hún flæðir vel og samspil þeirra sem leika titilhetjurnar er óvenju sterkt (Ray Stevenson og Matthew McFadyen eru t.a.m. nokkuð góðir). Sumir eru góðir, aðrir lélegir og síðan eru þeir sem ofleika með bestu lyst.

Hún fær átta ruslafötur af tíu.

Hvernig fannst ykkur The Three Musketeers?