Svínvirkar á réttum stöðum

Það er óhjákvæmilegt að horfa á John Carter án þess að velta því fyrir sér hversu oft hún minnir mann á eitthvað allt annað. Ég vil nú samt biðja fólk um að athuga það að þetta er ekki þessi týpíska tilraun hjá Disney til að búa til enn eina franchise-seríuna. Eða jú, ókei… hún er frekar mikið þannig, en myndin er samt ekki eitthvað bjánalegt rip-off sem enginn metnaður er í. Þvert á móti er upprunalega hráefnið svo gamalt að það mætti næstum því kalla það frumkvöðul í ævintýra/fantasíugeiranum. Og það að þetta verk skuli vera leikstýrt af einum besta Pixar-leikstjóranum (sem gaf mér þá ómetanlegu gjöf sem kallast Wall-E) ætti að nákvæmlega tvennt; að áhuginn fyrir sögunni og heildarframleiðslunni ætti alls ekki að vera fjarverandi, og líka það að þarna er strax komin góð ástæða til þess að sjá þessa mynd.

Ég vænti nú þess að lesendur kannist við nafnið Edgar Rice Burroughs. Þeir sem gera það ekki eru líklegri til þess að horfa á sýnishornin fyrir John Carter, setja upp „mér-er-skítsama“ svip og hugsa um eitthvað annað. Ég skil það samt vel. Á yfirborðinu (og ekki síður í sýnishornunum) lítur þetta út eins og afkvæmi Attack of the Clones og Prince of Persia með ýmsum öðrum einkennum stráðum yfir, en það er ekki þessari mynd að kenna að fullt af öðrum ævintýrum hafi fengið ýmislegt „lánað“ frá Barsoom-sögunum hans Burroughs. Þær eru hér um bil aldagamlar og er ég í raun hálfhissa að þessi tröllvaxna mynd hafi ekki litið dagsins ljós fyrr. Ég er samt feginn að svo hafi ekki verið því í röngum höndum hefði þetta getað breyst í allt það sem maður hafði áhyggjur af.

Það skiptir líka öllu að tölvutæknin geri ímyndunaraflinu og ævintýraheiminum almennilegt réttlæti. Þess vegna er ég mjög feginn að fá þessa mynd, í dag. Vissulega höfum við öll séð betri, flottari og dýpri fantasíur, en myndin vill fyrst og fremst skemmta manni og það gerir hún prýðilega. Hún finnur krakkann í manni og skemmtir honum með fínni sögu, klikkuðu sjónarspili (sem segir sig sjálft) og fjörugu afþreyingargildi þegar uppi er staðið.

Áður en lengra er haldið vil ég koma því til skila að þeir sem sáu um markaðssetninguna fyrir myndina erlendis eru heldur slakir í vinnunni sinni. Það var einnig heimskuleg ákvörðun að strípa niður titilinn svo ekkert annað standi eftir nema tvö algeng karlmannsnöfn sem smellt eru saman. Þessi mynd hefði átt að heita John Carter of Mars, því annars er sci-fi bragðið alveg horfið, og í hlutlausum augum gæti þetta auðveldlega hljómað eins og hver annar pólitískur dramaþriller (ekki hljómar t.d. Tony Gilroy-dramað Michael Clayton eins og ævintýrasaga). Titillinn A Princess of Mars (eins og fyrsta bókin hét) hefði heldur ekki verið svo slæmur. Hefðbundinn kannski, en ekki jafnþurr og John Carter. Hins vegar, þar sem hinni grútleiðinlegu Mars Needs Moms gekk svo illa í aðsókn þorðu markaðsmennirnir hjá Disney ekki að taka sénsinn á annarri mynd með „Mars“ í titlinum, haldandi að það sé einhver bölvun.

Grínlaust, þetta var ástæðan!

Maður fyllist samt svo miklu stolti fyrir hönd Pixar-leikstjóranna sem hafa verið að spreyta sig í „læv-aksjón“ myndum, sérstaklega þegar þeir eru í svona háu áliti hjá manni. Brad Bird púllaði stökkið ákaflega vel með Ghost Protocol og Andrew Stanton stekkur ef til vill betur úr teiknimyndaforminu yfir í epíska fantasíu með John Carter (kaldhæðnislega er mikið stokkið í báðum myndum). Rólegu dramasenurnar eru að vísu oft hálf máttlausar en tónninn er réttur, flæðið í góðu (fyrir utan tímabundinn rugling í opnunarsenunum), leikararnir stórfínir og húmorinn hjá leikstjóranum varð ekki skilinn eftir hjá skrifstofum Pixar. Mikilvægustu senurnar ganga oftast upp og umhyggjan fyrir persónunum er nánast áþreifanleg. Ég ber líka mikla virðingu fyrir Stanton að hafa þorað að velja óþekkt andlit í aðalhlutverkin í 250 milljón dollara stórmynd. Það gerist mjög sjaldan, en fyrir vikið er enginn rangur í sínu hlutverki.

Þessi Taylor Kitch er ekki alveg með smitandi karisma en hann er óhuggulega viðkunnanlegur og eins brjálað svalur og síðhærður maður getur orðið sem er oftast ber að ofan og getur stokkið eins og engispretta á Mars-plánetunni. Kitch er sömuleiðis fyndinn og hefur þann sjaldgæfa hæfileika að láta tanngnístandi línur í handritinu hljóma nokkuð sannfærandi. Megabeibið Lynn Collins á líka þrusufínan samleik með honum og mynda þau saman trúverðuga og krúttlega kemistríu. Aðrir leikarar eru flestir fínir og hrasa aðeins þegar handritið er ekki alveg að brillera í samtölunum. Willem Dafoe er líka pínu töff, eða röddin hans öllu heldur, á meðan Mark Strong er… tja… Mark Strong. Semsagt aldrei leiðinlegur, oftast öflugur en stundum voða staðlaður – eins og hér. Er þessi maður samt á hraðvalinu hjá öllum stúdíóunum þegar þeim vantar dularfullt illmenni með dimma rödd??

Það tekur tíma að komast yfir bjánalegu nöfnin í sögunni sem Burroughs fann upp á (Barsoom, Sab Than, Kantos Kan, Tardos Mors! Og nóg eftir), en Stanton ber höfuðið hátt og kemur í veg fyrir að myndin verði vandræðaleg þó hún sé stundum örlítið hallærisleg. En ef maður sleppir sér aðeins í ævintýrinu er drullulétt að rúlla með henni, og í rauninni er það bara sjúklega gaman. Sagan er einföld en samt nógu flókin til að myndin verði aldrei of smábarnaleg, og bláa blóðbaðið er mjög sniðug leið til að sýna stríðsofbeldi án þess að fæla krakkanna í burtu. Ég held að það sé nokkuð bókað að ég muni sjá þessa mynd töluvert oftar en einu sinni. Og ég vil meira!

Stutt í áttu.


  (7/10)