Tyler Perry er harðsoðin lögga

Hversu harðsoðin er hægt að deila um, en engu að síður fer klæðskiptingurinn Tyler Perry með hlutverki rannsóknarlögreglumannsins fræga Alex Cross í samnefndri kvikmynd; sem hefur nú fengið bæði plakat og stiklu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að Cross góður er kvikmyndaður, enda steig Morgan Freeman í skó persónunnar í myndunum Kiss the Girls og Along Came a Spider með „ásættanlegri“ útkomu. Því er þetta ekki beint heilög jörð sem Perry og félagar ganga á og til að undirstrika fjarlægðina frá Freeman-myndunum hoppuðu handritshöfundarnir nokkrar bækur fram í tímann í 18-bóka sögu karaktersins.

Að þessu sinni er Cross að eltast við raðmorðingjann The Butcher, leikinn af einstaklega vöðvamiklum Matthew Fox, sem fljótlega gerir hlutina persónulega. Orð geta þó aðeins sagt svo mikið:

Stiklan er svo sannarlega mun skárri en nokkuð annað sem Tyler Perry hefur áður snert, enda er þetta hans fyrsta aðalhlutverk undir annarri leikstjórn heldur en sinni eigin. Ég ætla þó ekki að neita því að ég vildi að Idris Elba hefði ekki sagt sig úr titilhlutverkinu í fyrra, og þessi blessaði PG-13 miði sem hangir drungalega yfir myndinni er ekki að gera neinum greiða.
Þrátt fyrir það hefur myndin náð athygli minni og vonandi gerði stiklan það sama fyrir ykkur.

Hvað segja svo Kvikmyndir.is lesendur, var Perry rangur kostur eða á að gefa honum séns?