Terminator í tökur í janúar – Ellison börn borga brúsann

Terminator-1Samkvæmt heimildum Deadline kvikmyndavefjarins þá er kominn fljúgandi gangur í fjármögnunina á nýju Terminator myndinni, en nýjustu fregnir herma að systkinin, David og Megan Ellison, börn eins af ríkustu mönnum í heimi, Larry Ellison forstjóra Oracle hugbúnaðarrisans, muni fjármagna sinnhvorn þriðjunginn af heildarkostnaði myndarinnar, og Paramount kvikmyndaverið muni greiða þriðjunginn sem upp á vantar.

Arnold Schwarzenegger, aðalleikari Terminator seríunnar, sagði sjálfur í fyrradag í Sydney, að hann væri að „koma aftur“ [sem Terminator] og að tökur myndarinnar hæfust í janúar nk.

Samkvæmt frétt Deadline kemur ekkert af þessu á óvart, en Megan Ellison borgaði 20 milljónir Bandaríkjadala fyrir réttinn til að gera framhaldsmyndir af Terminator seríunni í Cannes árið 2011, í samstarfi við bróður sinn.

Megan hefur hingað til einbeitt sér að listrænni myndum, en David hefur komið nærri stórmyndum eins og Star Trek og Mission Impossible.

Sagt er að Megan sé að reyna að fá leikstjóra Zero Dark Thirty, Kathryn Bigelow, til að leikstýra myndinni, en þær sögur hafa hingað til verið bornar til baka.  Verkefnið hefur verið leikstjóralaust síðan Justin Lin, leikstjóri Fast and the Furious 6, gaf starfið frá sér þar sem hann vildi vera með í handritsvinnunni frá byrjun.

Handritshöfundar eru þau Laeta Kalogridis, sem skrifaði Shutter Island og Avatar, og Patrick Lussier, sem skrifaði My Bloody Valentine.