Diaz verður geðstirð skólastýra í Annie

Cameron Diaz hefur skrifað undir samning um að leika skólastýruna geðstirðu Miss Hannigan í kvikmynd sem gera á eftir söngleiknum Annie.

diaz

Áður hafði Sandra Bullock átt í viðræðum um að taka að sér hlutverkið, en þær viðræður hafa greinilega ekki náð alla leið.

Ýmis stór nöfn koma að gerð þessarar myndar og til að mynda eru leikarinn Will Smith og tónlistarmaðurinn Jay-Z á meðal framleiðenda.

Aðrir leikarar eru Óskarsverðlaunahafinn Jamie Foxx sem leikur milljarðamæringinn Daddy Warbucks, og Quvenzhané Wallis, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Beasts of the Southern Wild þegar hún var 9 ára, og varð þar með yngsti leikarinn til að hljóta tilnefningu, mun leika Annie sjálfa.

Upphaflega stóð til að Willow Smith, dóttir Will Smith, léki Annie, en hætt var við það þegar menn gerðu sér ljóst að hún yrði of gömul í hlutverkið þegar að tökum kæmi, en Willow verður 13 ára í haust.