Geta ekki hætt að leika sér

harryNý mynd um einkaspæjarana Harry og Heimi; Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst, er nú í vinnslu, en einn af aðstandendum myndarinnar, gamanleikarinn Karl Ágúst Úlfsson, tjáir sig stuttlega um myndina í viðtali í nýju fylgiblaði Morgunblaðsins, Áfram -á besta aldri.

Í blaðinu kemur fram að Harry og Heimir sé saga sem byrjaði sem útvarpssería á Bylgjunni fyrir 25 árum. Síðar lenti ein af sögunum um Harry og Heimi á leiksviði því 20 árum seinna var hún færð upp í Borgarleikhúsinu. Nú er komið að því að þeir félagarnir birtist í bíómynd, leiknir af  sömu leikurum. Leikarar í myndinni verða þeir Karl og Örn Árnason og Sigurður Sigurjónsson, sem eru einnig höfundar handrits.

Karl segir í blaðinu að þeir félagarnir „hafi bara svo gaman af því að leika sér saman að þeir geti ekki hætt.“

Hann segir einnig að nú séu þeir að vinna með leikstjóra sem þeir hafa ekki unnið með áður, Braga Hinrikssyni.

Myndin segir frá því þegar þokkadísin Díana Klein leitar ásjár hjá einkaspæjurunum Harrý og Heimi, þar sem faðir hennar, sem er veðurathugunarmaður á Regingnípu, virðist hafa horfið sporlaust. Harrý og Heimir leggja í leiðangur upp á hálendið og tekst að stöðva svívirðilegt samsæri danskra skíðaáhugamanna um að stela íslenska hálendinu og flytja það úr landi.

Nú er bara að bíða spennt/ur eftir að myndin og þeir félagar, birtist á hvíta tjaldinu!