Escape Plan (2013)

Sem gamall aðdáandi Sylvester Stallone (Rambo/Rocky) og Arnold Schwarzenegger (The Terminator/Commando) þá var þetta mynd sem ég ætlaði mér ekki að missa af, þó það séu ekki leiklistarhæfileikar þeirra félaga sem ég laðast að. Ég veit hvað þeir hafa upp á annað að bjóða, hvað þá saman. Þetta er eiginlega svona “Tveir fyrir einn tilboð”.

Myndin fjallar um Ray Breslin (Stallone) sem hefur það að atvinnu að brjótast út úr fangelsum og er sá besti í því. Hann tekur að sér verkefni sem er þó nokkuð stærra og erfiðara en þau sem hann hefur unnið að áður. Þar hittir hann Emil (Schwarzenegger) og þeir verða hinir mestu mátar.

Espace Plan

Myndin er skemmtileg og notar minna af frösum (oneliners) en ég bjóst við, sérstaklega eftir að hafa séð The Expandables myndirnar sem eru bara frasar, skothríð og sprengingar.  Kallarnir eru að leika meira en ég bjóst við og gera það bara ágætlega. Af þessum tveimur þá hefur Stallone staðið sig betur sem leikari í gegnum tíðina, en í þessu tilfelli hafði ég meira gaman af Schwarzenegger og fannst hann bara nokkuð flottur með skeggið – en, nei, það er enginn hér að fara að fá óskarinn!

Mér fannst á tímabili eins og þeir væru að reyna aðeins of mikið að hafa “góðan” söguþráð og gera myndina dýpri, en náðu aldrei taki á mér og ég kynntist persónunum ekkert og ég fann ekkert til með þeim þegar það var verið að fara illa með þá. Ég hefði viljað sjá meira fjör fyrir hlé.

Ég hafði mjög gaman af Jim Caviezel (The Passion of the Christ) í hlutverki sínu sem fangelsisvörðurinn Hobbes. Hann var dálítið ýktur og öðruvísi. Þetta er hasarmynd og er góð sem slík, samt í rólegri kantinum. Leikstjórinn er Mikael Håfström sem áður hefur gert myndir eins og 1408 (2007). Mér fannst myndatakan dálítið “in your face” á leikurunum, en umgjörðin var flott. Einnig fáum við að sjá Sam Neill (Jurassic Park) sem lækni og 50 Cent er í litlu hlutverki þarna með Amy Ryan (The Office þættirnir).

Í þremur orðum: Fjörug, skemmtileg og áhugaverð.

Mér varð hugsað til Lock Up (1989) með Stallone og An Innocent Man (1989)með Tom Selleck þegar ég sá þessa. Ef þú hefur ekki gaman af Stallone, þá er þetta ekki mynd fyrir þig.

Myndin er bönnuð innann 16 ára vegna talsmáta og barsmíða.
Ég myndi alveg leyfa 14 ára að sjá þessa.

Ég gef þessari mynd 6/10.