Hleður huga sínum niður í öflugt tölvukerfi

transendenceVísindatryllirinn Transcendence, sem margir spá að verði ein vinsælasta mynd ársins, verður frumsýnd miðvikudaginn 30. apríl á Íslandi. Í aðalhlutverkum er heill her úrvalsleikara og fara þar fremst í flokki þau Johnny Depp, Rebecca Hall, Morgan Freeman, Kate Mara, Cillian Murphy og Paul Bettany.

Will Caster, sem Johnny Depp leikur, er vísindamaður og tölvusnillingur sem hefur unnið að því að framleiða fullkomnustu gervigreind veraldar, sannkallaða ofurtölvu sem ekki bara veit allt sem mannkynið hefur nokkurn tíma vitað heldur skilur líka tilfinningar og aðrar mannlegar kenndir sem í hugum fólks leynast. Will nýtur bæði aðdáunar og virðingar vísindasamfélagsins en um leið hafa áætlanir hans vakið ugg í brjóstum margra sem óttast að hin nýja ofurtölva verði svo öflug að hún gæti í raun tekið öll völd á jörðinni.

Svo fer að einn af þeim hópum sem berjast gegn hugmyndum Wills ákveður að láta til skarar skríða gegn honum og myrða hann. Atlagan heppnast, nema það tekur Will nokkrar klukkustundir að deyja og þann tíma notar hann til að fá eiginkonu sína, Evelyn, og besta vin, Max Waters, til að hjálpa sér að hlaða sínum eigin huga niður í ofurtölvuna. Það heppnast, og um leið og líkami Wills deyr vaknar hugur hans í nýju formi í ofurtölvunni. En hugsun hans og hugmyndir hafa tekið algjörum og stórhættulegum stakkaskiptum.

Transcendence verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Bíóhöllinni Akranesi.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.