Erótíkin tryllir enn

Hin erótíska BDSM ástarsaga Fifty Shades of Grey , eða Fimmtíu gráir skuggar, heldur sigurgöngu sinni áfram í bandarískum bíóhúsum, og virðist ekki ætla að láta nýfrumsýndar myndir velgja sér neitt undir uggum svo neinu nemi.

fifty shads

Myndin þénaði 8 milljónir Bandaríkjadala í gær föstudag og áætlaðar tekjur myndarinnar yfir helgina alla er 24 milljónir dala, en þetta er önnur vika myndarinnar í sýningum. Samanlagt er útlit fyrir að tekjur myndarinnar á tíu daga tímabili frá frumsýningu verði komnar upp í 131 milljón Bandaríkjadali á sunnudaginn.

Myndin sló nokkur met á frumsýningarhelgi sinni, þar á meðal sló hún met yfir tekjuhæstu frumsýningu í febrúar frá því sögur hófust, en myndin þénaði 85 milljónir dala þá helgi.

Myndin, sem byggð er á metsöluþríleik E.L. James, kostaði 40 milljónir dala í framleiðslu, en var komin yfir 300 milljónir dala í tekjur á miðvikudaginn sl. af sýningum um heim allan.

James á nú í viðræðum við Universal kvikmyndaverið um að skrifa sjálf handritið að mynd númer 2.

Nýju myndirnar, The DUFF og Hot Tub Time Machine, falla báðar í skuggann af Fifty Shades of Grey.

The Duff fjallar um miðskólanema sem ákveður að breyta um ímynd þegar hún kemst að því að bekkjarsystkin hennar líta á hana sem DUFF, eða „Designated ugly fat friend“, eða feita, ljóta vininn í hópnum.

Nýjasta íþróttamynd Kevin Costner, McFarland USA, er fimmta vinsælasta myndin í Bandaríkjunum og stefnir í 11 milljóna dala tekjur yfir helgina alla, en hún kostaði 25 milljónir dala í framleiðslu.

Hot Tub Time Machine 2 gekk verst af nýliðinum, og varð sjöunda vinsælasta mynd gærdagsins, og stefnir í 5,5 milljóna dala tekjur yfir helgina alla.

Fyrri myndin þénaði 14 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni árið 2010, og þénaði alls 50,3 milljónir dala í bíó í Bandaríkjunum áður en yfir lauk.