San Andreas hristir USA

Jarðskjálfta- og stórslysamyndin San Andreas hristi vel upp í bandarískum bíóheimi um helgina, og var sú lang vinsælasta þessa helgina þar ytra.

san-andreas-09

 

Myndin, sem er í leikstjórn Brad Peyton og með Dwayne Johnson í aðalhlutverkinu, þénaði áætlaðar 53,2 milljónir Bandaríkjadala, sem er vel fyrir ofan þær 40 milljónir sem búist var við fyrirfram.

Þetta þýðir að myndin er vinsælasta mynd Dwayne Johnson á frumsýningarhelgi frá upphafi.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi miðvikudaginn, 3. júní.

Vinsælasta mynd síðustu helgar, Tomorrowland, datt niður í þriðja sæti aðsóknarlistans, með 13,8 milljónir dala í tekjur, en fyrir ofan hana í öðru sætinu er Pitch Perfect 2 og í fjórða sæti er Mad Max: Fury Road.

Hin nýja mynd helgarinnar náði ekki að valda sama usla og San Andreas. Mynd Cameron Crowe, Aloha, þénaði 10 milljónir dala, en myndin hefur fengið misjafna dóma gagnrýnenda auk þess sem önnur vandamál hafa tengst myndinni, eins og tölvupósthneyksli og sagt er að hún dragi upp hvítþvegna mynd af Hawaii eyjum.

Í myndinni leika þekktir leikarar, eins og Bradley Cooper, Rachel McAdams og Emma Stone, en það dugði ekki til.

Avengers: Age of Ultron er í fimmta sæti aðsóknarlistans þessa helgina og er komin upp í 427 milljónir dala í tekjur samanlagt í Bandaríkjunum.

Hér fyrir neðan er topp fimm listinn:

1. San Andreas — $53,2 milljónir
2. Pitch Perfect 2 — $14,8 milljónir
3. Tomorrowland — $13,8 milljónir
4. Mad Max: Fury Road — $13,6 milljónir
5. Avengers: Age of Ultron — $10,9 milljónir.