B-mynda hrollur á Blu

Litlu fyrirtækin sem gefa út Blu-ray diska halda áfram að dæla út „költ“ titlum og væntanlegir eru nokkrir sérlega áhugaverðir.

Children 1Hæst ber að nefna „Children Shouldn‘t Play With Dead Things“ (1972) eftir Bob Clark, sem þekktastur var fyrir myndir á borð við „Black Christmas“ (1974), „Porky‘s“ (1981) og „A Christmas Story“ (1983). „Children“ var frumraun Clark‘s og er myndin í hnotskurn eftirherma af „Night of the Living Dead“ (1968) og er hún nær eingöngu í hávegum höfð meðal unnenda lélegra mynda.

Alan (Alan Ormsby) er viðurstyggilegur leikstjóri í leikhúsbransanum sem dregur nokkra áhugaleikara með sér á litla eyju þar sem hann hyggst fara með þulu sem hann fullyrðir að muni vekja hina dauðu sem hvíla í kirkjugarði á staðnum. Og það gengur eftir!

Children 4

Þetta er B-mynd í alla staði. Ódýr, viðvaningsleg, áhugaleikarar sem eiga misgóðan dag og tæknivinnsla upp og niður. En allt neikvætt á við um 2/3 af myndinni því þegar hinir dauðu rísa upp tekur myndin heldur betur við sér og lokakaflinn er gríðarlega vel heppnaður. Hann er nógu öflugur til að maður fyrirgefi henni rúman klukkutíma af hangsi, aulabröndurum og mjög skrítnum einræðum Alans um náriðlun og annað álíka kræsilegt.

Children 2VCI Entertainment gefur „Children“ út á Blu og hafa snemmbúnar umsagnir verið jákvæðar. Vitaskuld mun þessi „költ“ gripur aldrei líta út eins og hann hafi verið skotinn í gær en greinilegt er að gæðin eru umtalsvert betri en gamli DVD diskurinn og þessi útgáfa er sú óklippta en breski mynddiskurinn var klipptur um 11 mínútur. Clark gerði næst hina frábæru „Deathdream“ (1972) og svo „Black Christmas“ en „Children“ sýnir vel hvers hann var megnugur í hryllingsmyndagerð, sér í lagi þessi magnaði lokakafli.

Myndin kemur út 23. febrúar.

Grindhouse Releasing er bandarískt fyrirtæki sem hefur gefið út hlaðna pakka; á síðasta ári fékk „The Beyond“ (1981) eftir Lucio Fulci kóngameðferð en næst á dagskrá hjá þeim er „splatter“ myndin „Pieces“ (1982) eftir Juan Piquer Simon, sem gerði hina óviðjafnanlegu Súperman eftirhermu „Supersonic Man“ (1979).

Pieces 1

„Pieces“ er spænsk framleiðsla sem þekkt er fyrir hreinan viðbjóð í aflimunardeildinni, afskaplega kjánalegan húmor, stirðbusalegan leik og hrikalegt enskt döbb. Eftirhermuiðnaðurinn var í blóma á þessum tíma hjá ítölum og spánverjum og hægt var að apa eftir nær öllu sem hafði reynst arðbært og búa til ódýrari útgáfu og samt græða slatta. „Pieces“ státaði af því á plakatinu að það væri ekki nauðsynlegt að skreppa til Texas til að sjá almennileg keðjusagamorð; og hún stendur við það.

pieces 3Splatterinn er með því subbulegra hér og ágætlega af hendi leystur brellulega séð. Ekkert getur þó afsakað döbbið en Simon (eins og flestir aðrir evrópskir leikstjórar í sömu kvikmyndategundinni) setti allt hljóð inn eftir á til að spara pening. Nær allar frammistöður leikara koma illa út við slíkar aðstæður en leikarahjónin Christopher og Linda Day George sleppa fyrir horn því þau eru bara svo viðkunnanleg.

En þrátt fyrir alla vankanta fær „Pieces“ hlaðna viðhafnarútgáfu með tveimur útgáfum af myndinni í 4K myndrænni yfirhalningu; enska útgáfan í óklipptri útgáfu (83 mín.) og lengri spænska útgáfan (86 mín.) fær að fljóta með. Heimildarmynd í fullri lengd, „42nd Street Memories“ með viðtölum við leikstjóra eins og William Lustig („Maniac“, „Maniac Cop“), Larry Cohen („It‘s Alive“, „God Told Me To“) og fleiri um tímabil „exploitation“ bíómynda er meðal aukaefnis ásamt yfirlestri fyrir myndina og margt lítið fleira. Einnig fylgir geisladiskur með tónlistinni úr myndinni. Gæði myndarinnar kalla ekki endilega á slíka glæsiútgáfu en aðdáendur kunna svo sannarlega að meta þessa fyrirhöfn. Ekki spillir þessa geggjaða kápa heldur fyrir.

„Pieces“ kemur út 1. mars.

Spider2VCI Entertainment á næstu mynd í upptalningu minni en „The Giant Spider Invasion“ (1975) kemur á Blu í næsta mánuði. Þessi fær 2.8 á IMDB en ef áhugasamir gefa sér tíma og lesa umsagnirnar þá eru þær margar hverjar ansi góðar; að því leyti að hér virðist vera um að ræða mynd sem fellur í þann vafasama flokk að teljast „svo slæm að hún er í raun góð“.

Ástríða og áhugi frekar en kunnátta virðist hafa verið drifkrafturinn í þessari ræmu um risavaxnar köngulær úr annarri vídd sem herja á smábæ í Wisconsin fylki.

Svo virðist að ein stór könguló var útbúin af leikmyndahönnuðum og til að gera hana hreyfanlega var þessi svaka múndering sett yfir Wolkswagen bjöllu sem keyrði blindandi í átt að leikurum sem vafalaust hafa verið skíthræddir þegar þetta ferlíki nálgaðist þá. Aðrar hjálparhellur voru svo inn í búningnum til að láta allar átta lappirnar hreyfast fram og aftur. Ed Wood hefði verið stoltur.

Spider1

Hvað um það; þessi mynd fær flotta útgáfu á Blu með góðri myndrænni yfirhalningu, stuttri heimildarmynd um gerð myndarinnar, viðtölum, endurprentun á myndasögublaði sem kom út á sama tíma og myndin, ritgerð um myndina frá forföllnum aðdáenda prýðir bakhlið kápunnar og loks geisladiskur með tónlist úr væntanlegum söngleik sem ber heitið…hvað annað…“The Giant Spider Invasion – The Musical“.

Spider3

Aldrei séð þessa en útgáfan er næstum því of góð til að láta fram hjá sér fara. Myndin kemur út 2. febrúar.

Sýnishornið fyrir „The Giant Spider Invasion“.