The Interview var hræðileg reynsla

Í lok árs 2014 varð Sony Pictures gamanmyndin The Interview, eftir Superbad höfundana Evan Goldberg og Seth Rogen, með þeim Rogen og James Franco í aðalhlutverkum, allt í einu mjög umdeild, en myndin var hugsuð sem ein af aðal myndum Sony kvikmyndaversins á þessum tíma, en hætt var snarlega við upphaflega dreifingaráætlun myndarinnar.

seth rogen

Í nýju viðtali segist Seth Rogen að þetta hafi verið ömurleg reynsla.

Í myndinni leikur James Franco treggáfaða „séð og heyrt“ fjölmiðlamanninn Dave Skylark, og Rogen leikur framleiðandann Aaron Rapaport. Þeir fá viðtal lífs síns, þegar þeim er boðið til Norður Kóreu að ræða við leiðtoga landsins, Kim Jong-un. Leyniþjónustan CIA hefur fljótlega samband við þá og þeir fá það verkefni að taka leiðtogann af lífi.

Margir túlkuðu myndina sem stríðsyfirlýsingu, og alls ekki neitt grín. Eftir því sem frumsýningin nálgaðist, þeim mun fleiri hótanir bárust um hryðjuverk, þar sem fyrirtækið var varað við því að sýna myndina, ellegar hefði það verra af.

Flestar kvikmyndahúsakeðjur hættu við sýningar, en einstaka minni kvikmyndahús ákváðu að sýna myndina. Myndinni var því dreift mjög lítið, og endaði beint á VOD nokkrum vikum síðar.

Seth Rogen sagði í spjallþættinum The Graham Norton Show, að þetta hafi alls ekki verið gaman, þó hann geti hlegið að öllu saman í dag:

„Þetta var hræðileg reynsla, já. Það er slæmt að vera sakaður um að koma næstum af stað stríði. Það er ekki gaman: það er ofur skrýtið… Ég þurfti öryggisverði, og svo einn daginn fóru þeir í burtu. Ég hugsaði, jæja, „ég er líklega öruggur núna“. Kvikmyndaverið útvegaði okkur öryggisverði ef einhver frá Norður Kóreu myndi vilja drepa okkur, býst ég við.  Og svo einn daginn, þá voru þeir horfnir … kvikmyndaverið vildi ekki borga lengur fyrir gæsluna.“

Myndin fékk á endanum misjafna dóma, og þeir sem sáu hana, sáu ekki hvernig mögulega var hægt að taka hana svona alvarlega. Sony tapaði talsverðu á myndinni. Myndin þénaði 6,1 milljón Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og 5,2 milljónir dala annarsstaðar.  Kostnaður var hinsvegar 42-44 milljónir dala.

Kíktu á viðtalið hér fyrir neðan: