Nýtt í bíó – Grimmd

Íslenska spennumyndin Grimmd, eftir Grafir og Bein leikstjórann Anton Sigurðsson, verður frumsýnd á morgun, föstudaginn 21. október, í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

grimmd-mynd

Myndin segir frá því þegar tvær ungar stelpur hverfa sporlaust af leikvelli í Árbænum. Stúlkurnar finnast látnar í Heiðmörk og í einbeittri rannsókn í leit að sökudólgum fléttast saman nokkrar sögur þegar hræðileg atriði í máli stúlknanna koma upp á yfirborðið. Þjóðfélagið fer á annan endann vegna málsins og reyndustu rannsóknarlögreglumenn landsins, þau Edda Davíðsdóttir og Jóhannes Schram, eru kölluð til. Þau eru bæði staðráðin í að leysa málið en þurfa að etja kappi við tímann þegar hvimleið atvik úr fortíðinni líta dagsins ljós og erfið rannsóknin flækist enn frekar.

Aðalleikarar: Salome R. Gunnarsdottir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Margrét Vilhjálmsdóttir

Áhugaverðir punktar til gamans: 

  • Pétur Óskar Sigurðsson sem leikur Andra í Grimmd þurfti að missa 17 kíló á sex vikum fyrir tökur á myndinni. Gerði hann það í samráði við Hauk Heiðar lækni og söngvara hljómsveitarinnar Diktu.
  • Upprunalega var aðalhlutverkið skrifað fyrir karlmann en eftir að Margrét Vilhjálmsdóttir fékk áhuga á myndinni var ákveðið að breyta kyninu. Þess má geta að þetta er fyrsta kvikmyndahlutverk Margrétar síðan hún lék í Mömmu Gógó árið 2010.
  • Þeir Sveinn Ólafur Gunnarsson og Hannes Óli Ágústsson þykja fara á kostum í myndinni en þeir léku einmitt saman á sviði í Illsku á sama tíma og tökur á Grimmd fóru fram. Þeir félagar snúa til leiks aftur í vetur því ákveðið hefur verið að Illska verði sýnd áfram.
  • Rannsóknarlögreglan vann náið með kvikmyndateyminu fyrir tökur og var síðan viðstödd þær nær allan tímann. Lögreglan, sem kemur mikið fyrir í myndinni, útvegaði ennfremur tæki og búnað.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

grimmd-poster