Cooper verður fallhlífarhermaður fastur á óvinalandi

bradley-cooperBradley Cooper hefur verið ráðinn í hlutverk fallhlífarhermanns sem starfar í óvinalandi, í Seinni heimstyrjaldarmyndinni Atlantic Wall.  Gavin O´Connor mun leikstýra eftir handriti Zach Dean.

Myndin fjallar um fallhlífarhermann sem er strandaglópur öfugu megin víglínunnar, nokkrum klukkustundum áður en bandamenn ráðast inn í Normandí í Frakklandi. Verkefni hans er að útvega upplýsingar sem geta haft úrslitaáhrif á þróun stríðsins. Að auki vill hann uppfylla loforð sem hann gaf um að vernda son félaga síns, sem var myrtur.

„Við erum himinlifandi yfir því að Atlantic Wall sé að lifna við á hvíta tjaldinu með jafn hæfileikaríkum leikstjóra og Gavin er,“ sagði framleiðandinn Dan Friedkin í tilkynningu. „Ferilskrá Bradley segir allt sem segja þarf. Hann er fullkominn í hlutverk þessarar flóknu, en oft ófúsu hetju. Við gætum ekki haft betri félaga í þessu verkefni.“

Cooper lék leyniskyttu í American Sniper og leikur aðalhlutverkið í endurgerð söngvamyndarinnar A Star is Born, ásamt Lady Gaga. Sú mynd verður frumsýnd árið 2018.

Cooper vinnur nú að Black Flags, The Rise of ISIS ásamt HBO sjónvarpsstöðinni. Hann mun einnig endurtaka leik sinn í hlutverki Rocket Raccoon í Disney-Marvel ofurhetjumyndinni Guardians of the Galaxy 2, sem frumsýnd verður í maí nk.

O´Connor leikstýrði Ben Affleck í spennutryllinum The Accountant, sem er enn í bíó hér á landi. Þá leikstýrði hann Warrior og Jane Got a Gun. 

 

Stefnt er að því að taka myndina upp á söguslóðum í Normandí.