Hellboy endurræstur með Stranger Things leikara

Stranger Things leikarinn David Harbour mun leika djöfladrenginn og ofurhetjuna Hellboy í nýrri endurræsingu framleiðslufyrirtækisins Lionsgate á Hellboy myndunum.

Ofurhetjan Hellboy er sköpunarverk Mike Mignola, piltur sem kemur ungur að aldri beinustu leið frá helvíti en er alinn upp sem venjulegur drengur. Honum vaxa horn sem hann sverfur niður sem skýrir tvo stauta á enni hans. Hann er með klaufir, ofvaxna steinhendi og góðan húmor.

Myndinni, sem mun heita Hellboy: Rise of the Blood Queen, verður leikstýrt af Neil Marshall, samkvæmt The Hollywood Reporter. 

Framleiðsluverið Revolution Studios gerði fyrstu myndina og Sony dreifði henni árið 2004. Mynd númer tvö, Hellboy: The Golden Army, var framleidd af Universal og var frumsýnd árið 2008.

Guillermo del Toro leikstýrði báðum myndunum.

Del Toro og Ron Perlman,  sem lék Hellboy í myndunum tveimur, reyndu að gera þriðju myndina, en fjármögnun reyndist erfið. Framleiðendur ákváðu því að fara þá leið að endurræsa myndina.

Stefnt er á tökur í haust.