Bangsi á toppnum

Framhaldsmyndin um breska bangsann Paddington er á toppi listans yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Alls sáu tæplega 4.700 landsmenn myndina yfir helgina og hafa um 7.000 manns séð myndina í kvikmyndahúsum hér á landi frá því að hún var frumsýnd þann 12. janúar. Bangsinn hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að fyrsta bókin um hann kom út árið 1958. Kvikmynd var gerð um hann árið 2014 sem naut einnig vinsælda og var strax ráðist í framhaldsmynd sem hefur nú loks verið frumsýnd.

Í Paddington 2 lendir bangsinn í mikilli klemmu þegar óprúttinn þjófur stelur fágætri bók sem hann ætlaði að kaupa til að gefa frænku sinni í afmælisgjöf. Þjófurinn lætur sig svo hverfa á dularfullan hátt en með þeim afleiðingum að lögreglan heldur að Paddington sé þjófurinn. Þangað til Paddington getur hreinsað af sér sakirnar er honum stungið í fangelsi. Þar eignast hann fljótlega marga góða vini sem eiga áreiðanlega eftir að hjálpa honum að hafa uppi á hinum rétta þjófi og endurheimta bókina góðu úr höndum hans.

Í öðru sæti listans situr ævintýramyndin Jumanji: Welcome to the Jungle. Í myndinni finna fjórir miðskólanemar gamlan tölvuleik og dragast inn í leikinn sem er með frumskógarþema, og breytast í þær persónur í leiknum sem þau vilja. Þau komast hinsvegar að því að þau eru ekki bara að spila leikinn – þau verða að lifa hann af.

The Commuter, með Liam Neeson í aðalhlutverki, er svo í þriðja sæti listans. Neeson fer með hlutverk tryggingasölumanns sem um tíu ára skeið hefur ferðast með sömu lestinni fram og til baka úr vinnu. Dag einn sest hjá honum ókunnug kona sem býður honum 75 þúsund dollara greiðslu fyrir að leysa dularfullt verkefni sem tengist einum farþega lestarinnar.