#MeToo mynd á leiðinni með stórstjörnum

Hneykslismálið sem snerist um kynferðislega áreitni forstjóra Fox News sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku, Roger Ailes, og varð til þess að Ailes sagði af sér árið 2016, verður að kvikmynd, með frægum leikurum innanborðs.

Margot Robbie og Nicole Kidman hafa slegist í lið með Charlize Theron í dramakvikmynd sem leikstýrt verður af Emmy verðlaunahafanum Jay Roach.

Hneykslismálið varð til þess að Rupert Murdoch eigandi Fox News varð að taka við stjórnartaumunum í félaginu, eftir að Ailes sagði af sér vegna ásakana um áreitni í garð kvenkyns framleiðenda og fréttalesara við stöðina.

Þó að málið hafi komið fram áður en ásakanir í garð Hollywood framleiðandans Harvey Weinstein komu fram á sjónarsviðið í lok árs 2016, þá er málið eitt af stærstu #metoo málunum, þar sem áreittar konur sem þaggað hafði verið niður í, fóru að segja frá áreitni og ofbeldi sem þær urðu fyrir, sem síðar varð að #MeToo hreyfingunni.

Digital Spy vefsíðan segir svo frá: „Emmy verðlaunahafinn úr Big Little Lies [sjónvarpsþáttunum] Nicole Kidman, verður í hlutverki Gretchen Carlson, og Charlize Theron verður fyrrum fréttalesarinn Megyn Kelly, sem fór frá stöðinni eftir að hún sagði frá áreitni sem hún varð fyrir.“

Einnig sagði vefsíðan: „Robbie leikur skáldaðan aðstoðarframleiðanda hjá Fox News, sem verður samnefnari fyrir raunverulegar persónur og leikendur í málinu, sem unnu með bæði Carlson og Kelly á bakvið tjöldin.“

Framleiðandi kvikmyndarinnar er Annapurna Pictures, kvikmyndaverið sem Zero Dark Thirty, American Hustle og Phantom Thread framleiðandinn Megan Ellison rekur.

Vinnuheiti kvikmyndarinnar er Fair and Balanced, sem er vígorðið sem Fox News stöðin notaði fram til ársins 2017.