Leikari og pólitíkus mætir á Fall Bandaríkjaveldis

Kanadíski leikarinn, handritshöfundurinn og stjórnmálamaðurinn Pierre Curzi, 72 ára, frá Montreal í Quebec, mætir á franska kvikmyndahátíð sem haldin verður í nítjánda skipti í Háskólabíói og í Veröld – Húsi Vigdísar frá 6. – 17. febrúar nk.

Curzi leikur í kvikmyndinni Fall Bandaríkjaveldis eftir Denys Arcand, en franska kvikmyndahátíðin bauð sendiráði Kanada á Íslandi að leggja til þá kvikmynd sem verður lokasýning hátíðarinnar og kostar ekkert inn á þá sýningu.

Eins og sést á IMDB.com síðu leikarans þá á hann að baki langan og gifturíkan feril sem leikari, en á Wikipediu síðu hans sést að hann á einnig að baki feril sem stjórnmálamaður.

Fall Bandaríkjaveldis er háðsáeila og fjallar um hámenntaðan einstakling, með doktorspróf í heimspeki, sem neyðist til þess að vinna sem sendill til þess að ná endum saman og flækist inn í rán sem fer úrskeiðis: tveir látnir og milljónir í peningasekkjum liggja við fætur hans. Hann stendur frammi fyrir vali: yfirgefa svæðið tómhentur eða grípa peninga og hverfa á brott?

Að frönsku hátíðinni standa Alliance Française í Reykjavík og sendiráð Frakklands á Íslandi, í samstarfi við Institut français, Myndform og sendiráð Kanada á Íslandi.

Í tilkynningu frá aðstandendum segir að á dagskrá hátíðarinnar sé úrval af nýjum myndum, af öllu tagi, gamanmyndum, drama, spennumyndum, teiknimyndum, sögulegum myndum og klassískum myndum m.a.

Myndirnar verða sýndar á frummálinu með íslenskum eða enskum texta. Í tilkynningunni segir að þær hafi hlotið mikla aðsókn og lof í Frakklandi jafnt sem í erlendum bíóhúsum eða á þekktum kvikmyndahátíðum. „Myndirnar sýna vel fjölbreytnina og gæðin í franskri kvikmyndagerð. Viðfangsefnin eru af öllu tagi og mörg nýstárleg: Gamansöm (Að synda eða sökkva), söguleg (Lýðurinn og konungur hans), dramatísk (Kvölin, Með forsjá fer…). Á dagskránni eru ennfremur afskaplega ljóðræn teiknimynd (Lovísa missir af lestinni) og frumleg ævisöguleg mynd um fræga franska söngkonu (Barbara).“

Á hátíðinni eru skipulögð tvö sérkvöld. Á öðru verða Sólveigar Anspach verðlaunin veitt fyrir bestu stuttmynd á íslensku eða frönsku eftir unga konu í leikstjórastétt. Eftir afhendingu verðlaunanna verður sýnd hin fræga stuttmynd Georges Méliès, Tunglferðin.

Hitt sérkvöldið er helgað klassíkinni þar sem verða sýnd tvö meistaraverk franskrar kvikmyndagerðar: Núll fyrir hegðun og 400 högg.

Þrír möguleikar eru í boði til að kaupa aðgang: Stakir miðar, þriggja mynda passar og hátíðarpassar sem gilda á allar sýningar.

—-