Wick velti Endgame af toppinum

Eftir þriggja vikna sigurgöngu á bandaríska aðsóknarlistanum þurftu Marvel ofurhetjurnar í Avengers: Endgame loks að játa sig sigraðar, enda er önnur hetja mætt á svæðið, engin önnur en John Wick, sem virðist vera ólseigur og ódrepandi í nýjustu myndinni John Wick: Parabellum.

John Wick á röltinu með Halle Berry og hundunum hennar, en þessi fjögur slátruðu í sameiningu her manna í Marokkó.

Tekjur John Wick: Parabellum, sem er þriðja myndin í seríunni, námu 57,2 milljónum bandaríkjadala í Bandaríkjunum, en myndin var frumsýnd í þrjú þúsund bíóhúsum um landið þvert og endilangt. Tekjur Endgame til samanburðar þessa helgi námu 29,4 milljónum dala.

Tekjur Parabellum voru meiri en fyrri tveggja myndanna á frumsýningarhelgi. Tekjur fyrstu myndarinnar námu 14,4 milljónum dala fyrstu helgina í sýningum, en tekjur myndar númer tvö námu 30,4 milljónum dala á frumsýningarhelginni.

Á alþjóðasviðinu námu tekjur Parabellum 35,2 milljónum dala.

Keanu Reeves snýr í Parabellum aftur í hlutverki leigumorðingjans sem sestur var í helgan stein í fyrstu myndinni, en eftir atburði í mynd númer tvö er hann orðinn einn á báti og réttdræpur af öllum leigumorðingjum heimsins, auk þess sem verðlaunafé til höfuðs honum er nú 14 milljónir dala.

Ýmsir stórleikarar leika í myndinni, eins og Halle Berry, sem á magnaða innkomu og reynist vera ekki síðri með byssurnar, hnefana og hnífana, og John Wick sjálfur, auk þess sem hundarnir hennar tveir rífa mann og annan í sig. Þá leikur Angelica Huston í myndinni.

Avatar enn á toppinum

Heildartekjur Endgame alþjóðlega nema núna 2,614 milljörðum bandaríkjadala, sem duga ekki til að velta tekjuhæstu mynd sögunnar úr sessi, Avatar með 2,788 milljarða dala.

Í Bandaríkjunum hefur myndin þó velt Avatar úr sessi í tekjum talið, er komin með 771 milljón dala í tekjur en Avatar náði að raka saman 761 milljón dala á sínum tíma.

Tekjuhæsta mynd í Bandaríkjunum frá upphafi er hins vegar Star Wars: The Force Awakens með 937 milljónir dala. Enn er því langt í land fyrir Endgame að ýta henni úr toppsætinu.

Af öðrum myndum er það að segja að myndin, A Dog´s Journey, sem er framhald A Dog´s Purpose, virðist ekki ætla að verða jafn vinsæl og fyrirrennarinn. Upprunalega myndin var með tekjur upp á 18 milljónir dala á frumsýningarhelgi, og tekjur af sýningum á alþjóðavísu náðu 140 milljónum dala, þar af voru tekjur af sýningum í Kína 88 milljónir dala.

Þriðja nýja myndin í bíóhúsum vestan hafs var The Sun is Also A Star, en helgin olli vonbrigðum þar á bæ, því tekjur af sýningum hennar námu einungis 2,6 milljónum dala.