Endgame bræður gera Battle of the Planets mynd

Leikstjórateymið Russo bræðurnir vinnur nú að leikinni útgáfu af teiknimyndaseríunni Battle of the Planets, og samkvæmt vefsíðunni Metro.co.uk eru þeir mjög spenntir yfir verkefninu.

Russo bræðurnir Anthony og Joe. Ljósmynd/ Gage Skidmore

Fyrir þá sem ekki vita þá er ferilskrá bræðrana stórglæsileg, en þeir hafa til dæmis leikstýrt fjórum Marvel ofurhetjumyndum; Captain America: The Winter Soldier frá árinu 2014, Captain America: Civil War frá árinu 2016, Avengers: Infinity War frá 2018 og Avengers: Endgame frá því fyrr á þessu ári. Endgame varð sú mynd í kvikmyndasögunni sem hraðast náði tekjum upp á 2,7 milljarða Bandaríkjadala, hún er tekjuhæsta ofurhetjumynd allra tíma og önnur tekjuhæsta kvikmynd allra tíma.

Bræðurnir eru einnig þekktir fyrir gamanseríurnar Community og Arrested Development, en fyrir þær hafa þeir unnið til Emmy verðlauna.

Bræðurnir, Joe og Anthony Russo, framleiða og munu væntanlega leikstýra kvikmyndinni ( eða kvikmyndunum ), en þeir tilkynntu um þetta á afþreyingarhátíðinni Comic Con sem nú stendur sem hæst í San Diego í Bandaríkjunum.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Battle Of The Planets sjónvarpsþáttaröð sem gekk frá 1978 – 1985 í Bandaríkjunum, og er þarlend útgáfa af japönsku teiknimyndaseríunni Science Ninja Team Gatchaman.

Serían fjallar um skikkjuklædda sérsveit í klofháum stígvélum sem verndar Jörðina fyrir ógnum utan úr geimnum.

Til að undirstrika eftirvæntinguna fyrir því sem koma skal þá klæddist Anthony gamaldags Battle Of The Planets stuttermabol í pallborðsumræðum um verkefnið á Comic Con, en Joe sagði að þeir bræður, sem fæddir eru 1970 og 1971, hafi flýtt sér heim eftir skóla á hverjum degi til að horfa á þættina í sjónvarpinu