Ósýnilegir leigusalar

Á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, er í dag á dagskrá kvikmynd um svokallaða ósýnilega leigusala.

Fasteignamál eru mörgum ofarlega í huga.

Um er að ræða heimildarkvikmyndina Push, eða Þvingun eins og hún heitir á íslensku, en myndin fjallar, samkvæmt tilkynningu frá hátíðinni um þau grundvallar réttindi, eins og það er orðað, að hafa þak yfir höfuðið, sem sé forsenda öryggis og heilbrigðs lífs. „Húsnæðisverð er að hækka upp úr öllu valdi í borgum heimsins en tekjur fólks hækka ekki í samræmi við það. Push varpar ljósi á ósýnilega leigusala, borgir sem við getum ekki lengur búið í og þá stigvaxandi erfiðleika sem þessu fylgja. Þetta er ekki miðstéttarvæðing heldur eitthvað allt annað skrímsli.“

Borgarstjórinn mætti

Í tilkynningunni segir að myndin hafi vakið gríðarlega athygli víða um heim og sjálfur borgarstjóri Kaupmannahafnar hafi mætt á frumsýningu kvikmyndarinnar í Danmörku. Hann hafi farið strax í kjölfarið í það verkefni að breyta reglum borgarinnar.

Stikla myndarinnar.

Eftir sýningu myndarinnar verða umræður þar sem Vilhjálmur Bjarnason frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna ræða málin og svara spurningum úr sal.

Eins og Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir, segir í nýlegri skýrslu: „Það eru um 137.000 heimili, íbúðir, á landinu og það vantar um 17.000 íbúðir til 2020.“ Hann segir síðar: „Ég hef haldið því fram undanfarið ár að það vanti um 15.000 íbúðir á markaðinn, til að anna eftirspurn, vinna upp eftirhruns árin og fólksfjölgun hingað til og fram að 2020. Það vantar semsagt 10 % af heildafjölda heimila í landinu þó kerfið reyni auðvitað að segja vandann minni til að minnka skömm sína af því að hafa ekki séð þetta fyrir og ekki brugðist við fyrr.“

Ráðherra félagsmála, Ásmundi Einari Daðasyni, var boðið á sýninguna fyrr í vikunni og boðið að taka þátt í umræðunum.