Níundu verðlaun Hvíts, hvíts dags

Í gærkvöldi vann íslenska kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur aðalverðlaun Norrænna kvikmyndadaga í Lübeck í Þýskalandi, sem haldnir voru í 61. sinn þetta árið, en þetta eru níundu verðlaun kvikmyndarinnar. Ingvar E. Sigurðsson leikari var viðstaddur þýska frumsýningu myndarinnar og tók á móti verðlaununum fyrir hönd myndarinnar.

Ingvar með verðlaunin. Ljósmynd Olaf Mal.

Í tilkynningu frá framleiðendum segir að myndin fari í almenna dreifingu í kvikmyndahúsum í Þýskalandi þann 13. febrúar á næsta ári.

Héraðið og Bergmál kepptu einnig

Mikill fjöldi norrænna kvikmynda kepptu um verðlaunin, þeirra á meðal
Héraðið eftir Grím Hákonarson, Queen of Hearts ( Drottningen ) eftir May el-Toukhy (sem vann Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í síðustu viku), About Endlessness eftir Roy Andersson og Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson.
Verðlaunaféð er 12.500 evrur eða um 1,7 milljónir íslenskra króna.

Allur hópurinn.

Eins og segir í tilkynningunni er kvikmyndahátíðin í Lübeck eina kvikmyndahátíðin í Evrópu sem einblínir sérstaklega á norrænar kvikmyndir ásamt kvikmyndum frá Eystrasaltslöndunum og norðurhluta Þýskalands. Þetta árið voru í heildina níu íslensk kvikmyndaverk sýnd á hátíðinni.

Ingvar bregður á leik.

Aðrar íslenskar myndir sem hlotið hafa aðalverðlaun hátíðarinnar eru Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson 2018, Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson 2016, Vonarstræti eftir Baldvin Z 2014 og Hin Helgu Vé eftir Hrafn Gunnlaugsson 1994