Leikur einn afkastamesta fjöldamorðingja sögunnar

Leikararnir Jessica Chastain og Eddie Redmayne munu leiða saman hesta sína í spennutryllinum The Good Nurse, að því er Variety kvikmyndaritið greinir frá.

Myndin verður fyrsta kvikmynd danska A War leikstjórans Tobias Lindholm á ensku.

Kvikmyndin fjallar um Charlie Cullen, hjúkrunarfræðing, sem er talinn vera einn afkastamesti fjöldamorðingi allra tíma, og hafði viðurnefnið Engill dauðans.

Talið er að hann beri ábyrgð á dauða allt að 300 sjúklinga á meira en 16 árum. Redmayne leikur Cullen og Chastain leikur hjúkrunarfræðing sem fer að gruna að ekki sé allt með felldu.

Redmayne vann Óskarsverðlaunin fyrir The Theory of Everything árið 2014, og fékk einnig tilnefningu til verðlaunanna fyrir The Danish Girl árið 2015. Næstu kvikmyndir hans eru Fantastic Beasts and Where to Find Them 3, og The Trial of the Chicago, eftir Aaron Sorkin.

Chastain var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir The Help árið 2011, og Zero Dark Thirty árið 2012. Næst fáum við að sjá hana í hlutverki Tammy Faye Bakker í The Eyes of Tammy Faye, og njósnatryllinum 355.