Krefst þess að vera einn á hlaupum: „Betra en nokkur Óskarsverðlaun“

Stórstjarnan, áhættuleikarinn og ofurframleiðandinn Tom Cruise er þekktur fyrir það að hlaupa eins og fætur toga í kvikmyndum sínum. Þetta hefur lengi verið mörgum kunnugt og hefur þessi hefð leikarans orðið að miðpunkti óteljandi brandara.

Fyrir nokkrum árum fjallaði fréttamiðillinn Independent um athyglisverða könnun á vefnum Rotten Tomatoes. Þar kom fram að því meira sem Cruise hleypur í myndum sínum, þeim mun betur gengur þeim í kvikmyndahúsum.

Mest hefur Cruise hlaupið í myndinni Mission: Impossible III sem kom út árið 2006. Þar hljóp hann tæplega einn kílómetra á skjánum. Í næsta sæti kemur Mission: Impossible – Ghost Protocol þar sem hann var með um 900 metra. Báðum þessum myndum gekk gífurlega vel í kvikmyndahúsum. Eina undantekningin frá þessari reglu eru myndirnar Jack Reacher: Never Go Back (‘16) og The Mummy (‘17).

Sannaði sig á hlaupabrettinu

Cruise hefur þó lengi haldið utan um þá reglu að hlaupa ávallt einn á skjánum. Þetta staðfesti breska leikkonan Annabelle Wallis (Peaky Blinders, Annabelle) á dögunum við miðilinn The Hollywood Reporter.

Wallis lék á móti Cruise í The Mummy og segir hún í viðtalinu að hún hafi fengið þann heiður að gerast hluti að miklum kaflaskilum í lífi leikarans: að deila rammanum með Cruise og sjást á hlaupum honum við hlið.

Wallis segir Cruise hafa upphaflega hafnað þessu tækifæri áður en tökur hófust, en þá tókst henni að sannfæra hann um annað. „[Tom] sagði við mig: „Það hleypur enginn með mér“ og þá segi ég við hann: „En ég er virkilega góður hlaupari.“ Ég fór í átak á hlaupabrettinu og gætti þess að vera á hörðum spretti þegar hann mætir mér næst. Þá ákvað hann að bæta við fleiri hlaupsenum í myndina,“ segir leikkonan og bætir við:

„Þetta var betra en nokkur Óskarsverðlaun. Ég er svo glöð að hafa fengið að hlaupa með Tom Cruise.“


Talið er að heildarkostnaður The Mummy hafi verið á bilinu 130 til 200 milljónir Bandaríkjadollara. Myndin hlaut arfaslaka dóma, almennt neikvæð viðbrögð aðdáenda og er sögð hafa lent í allt að 95 milljón dollara tapi fyrir kvikmyndaverið Universal.

Þegar á framleiðslu stóð voru vonir hjá kvikmyndaverinu um að The Mummy myndi kynna glænýjan myndabálk; bíóheim skrímsla sem hefðu síðar sameinast í risastórri mynd, að hætti Avengers-myndanna. Þetta merki Universal gekk undir nafninu Dark Universe en fóru allar þær hugmyndir í súginn við fyrstu aðsóknarhelgi myndarinnar.

Hér að neðan má finna skemmtilegt samklipp þar sem Cruise hleypur eins og vindurinn, í gegnum ferilinn – í 19 mínútur!