Agnes fagnar 25 ára afmæli

Kvikmyndin Agnes frá Agli Eðvarðssyni verður tekin til sýninga í Sambíóunum þann 25. september, í endurbættri útgáfu og tilefni 25 ára útgáfuafmælis. Með aðalhlutverkin fara María Ellingsen, Baltasar Kormákur og Egill Ólafsson, en búist er við að myndin verði sýnd í viku, að minnsta kosti. 

Agnes er byggð á morðunum á Illugastöðum í Vestur Húnavatnssýslu árið 1828 og seinustu aftökum Íslandsögunnar sem fram fóru á Þrístöpum tveimur árum síðar. Málið er eitt þekktasta sakamál sem upp hefur komið hér á landi og var mikið í deiglunni eftir að ástralski rithöfundurinn Hannah Kent skrifaði sögulega skáldsögu byggða á atburðunum, Burial Rites frá árinu 2013. 

Kvikmynd Egils Eðvarðssonar frá 1995 er samkvæm sögunni í stærstu atriðunum. Agnes er ung vinnukona í vist á setri sýslumanns. Hún býr yfir frjálslegu fasi og fegurð sem vekur bæði fýsn og fordóma yfirboðara hennar. Hún fellur fyrir Natani Ketilssyni sem er djarftækur kvennamaður og sjálfmenntaður lyflæknir. Dramatísk samskipti aðalpersónanna þriggja, Agnesar, Natans og sýslumanns, hrinda af stað örlagaþrunginni atburðarás, þar sem ástarsamband breytist í martröð ofbeldis og tortímingar.

Myndin var valin til sýninga á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 1995 og voru fimmtán þúsund manns sem sáu hana í bíó hérlendis.

Má geta þess einnig að leikkonan Jenni­fer Lawrence sýndi því áhuga að fara með hlut­verk Agnes­ar Magnús­dótt­ur í kvikmynd verðlaunaleikstjórans Luca Gua­dagn­ino, eftir bók Kents. Staðan á því verkefni er þó enn óljós.